Fjögur dótturfélög flugfélagsins Norwegian, þrjú í Danmörku og eitt í Svíþjóð, hafa verið lýst gjaldþrota, en um er að ræða fyrirtæki sem önnuðust starfsmannahald flugfélagsins í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Bretlandi, Spáni og Bandaríkjunum.
Í frétt danska ríkisútvarpsins DR segir að alls hafi 1.571 flugmaður og 3.134 flugfreyjur og -þjónar nú misst vinnuna vegna gjaldþrota félaganna fjögurra.
Eftir standa hjá flugfélaginu um 700 flugmenn og 1.300 flugþjónar með starfsstöðvar í Noregi, Frakklandi og á Ítalíu, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Norwegian.
„Þetta er versta krísa sem flugbransinn hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir og við höfum gert allt sem í okkar mætti stendur til þess að hindra það, sem nú hefur gerst með dótturfélög okkar í Svíþjóð og Danmörku,“ er haft eftir Jacob Schram, forstjóra Norwegian, í tilkynningu félagsins.
Forstjórinn segir að það verði erfitt verkefni að koma flugfélaginu í gegnum þessar hremmingar. Norwegian hefur staðið höllum fæti um nokkurt skeið og vandræði þess hafa ekki minnkað eftir að kórónuveirufaraldurinn setti ferðalög á milli landa í algört uppnám sem ekki sér fyrir endann á.
Samkvæmt frétt DR skuldar Norwegian í heildina um 60 milljarða norskra króna, eða um 835 milljarða íslenskra króna. Markaðsvirði félagsins í kauphöllinni í Ósló er undir milljarði norskra króna og hefur hrapað um meira en 80 prósent frá því í ársbyrjun.