Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra boða til blaðamannafundar í dag um framhald efnahagsaðgerða vegna Covid-19. Fundurinn verður í Safnahúsinu við Hverfisgötu og hefst hann klukkan 16:00.
Lítið hefur lekið út um innihald pakkans en Bjarni sagði í gær í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi að stuðningur við einyrkja og lítil fyrirtæki og sértækur en tímabundinn stuðningur við einkarekna fjölmiðla væru allt atriði sem væru til skoðunar. „Við höfum frá upphafi verið að horfa til smærri fyrirtækja. Þar eru flest störfin og samkvæmt öllum hefðbundnum skilgreiningum á litlum og meðalstórum fyrirtækjum erum við að tala um bróðurpartinn af öllum fyrirtækjum í landinu. Já, við horfum til fyrirtækja sem hefur verið gert að loka starfsemi sinni og við höfum verið að spyrja okkur hvernig við getum komið til móts við þeirra sérstaka vanda, hvað sé sanngjarnt að gera í því. Við höfum sömuleiðis tekið eftir umræðunni um stöðu fjölmiðlanna og við höfum gert okkur grein fyrir því að hlutabótaleiðin svarar ekki öllum álitamálum sem upp koma hjá fyrirtækjum sem hafa kannski ekki þörf fyrir allt það starfsfólk sem er þar með ráðningarsamband.“
Einn mánuður frá aðgerðapakka eitt
Nákvæmlega mánuður er í dag frá því að ríkisstjórnin kynnt fyrsta aðgerðapakkann í Hörpu. Heildaráhrif þeirra voru sögð vera 230 milljarðar króna, en beinu nýju framlögin vegna hans voru líkast til um þriðjungur þeirrar upphæðar. Sumt þar voru verkefni sem þegar lágu fyrir, til dæmis í fjárfestingu, önnur miðuðu að því að fella niður gjöld sem væru hvort eð er ekki að fara að skila sér nema að litlu leyti, eins og afnám gistináttarskatts, og sum voru einfaldlega tekjuöflunarleiðir fyrir ríkissjóð, eins og það að heimila úttekt á séreignarsparnaði sem yrði þá skattlagður samhliða.
Stóru beinu aðgerðirnar snerust um hina svokölluðu hlutabótaleið, frestun opinberra gjalddaga, aukinnar fyrirgreiðslu fyrir fyrirtæki hjá banka viðkomandi og því að ráðast í fjárfestingarátak, aðallega í hefðbundnum innviðum sem útheima margar vinnumannahendur.
Aðgerðir fjármálastofnana hingað hafa því, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, fyrst og síðast snúist um að frysta afborganir af lánum viðskiptavina. Stærri fyrirtæki, sem eiga í nánu og miklu samstarfi við bankann sinn eru þar betur sett en lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru með litla eða jafnvel enga fyrirgreiðslu að jafnaði, en þurfa á henni að halda nú um stundir til að komast í gegnum það ástand sem skapast hefur vegna kórónuveirunnar.
Hin svokölluðu brúarlán, sem veitt verða með ríkisábyrgð til fyrirtækja sem hafa upplifað að minnsta kosti 40 prósent tekjufall, eru enn ekki komin til framkvæmda.
Þegar byrjað að undirbúa pakka þrjú
Viðmælendur Kjarnans sem þekkja til vinnnunar við aðgerðir stjórnvalda hafa flestir verið sammála um að í næstu aðgerðapökkum – það er þegar byrjað að undirbúa þann þriðja – muni meðal annars felast að gripið verði til umfangsmeiri aðgerða til að styðja við ýmiskonar nýsköpun. Á meðal tillagna sem rætt hafi verið um við stjórnvöld séu að fyrirliggjandi úrræði á borð við hlutabótaleiðina og frestun á skattgreiðslum verði látin ná yfir sprotafyrirtæki og að endurgreiðslur, til dæmis vegna rannsóknar og þróunar, verði hækkaðar verulega.
Tilgangurinn verður að styðja við starfsemi sem getur verið arðbær til frambúðar, þótt hún sé það ekki endilega í dag.