Mynd: Bára Huld Beck

Hvað verður í næsta efnahagspakka ríkisstjórnarinnar?

Fyrir rúmum þremur vikum kynnti ríkisstjórnin það sem hún kallaði stærstu efnahagsaðgerðir sögunnar. Fyrir lok þessarar viku mun hún þurfa að kynna annan aðgerðarpakka sem verður síst umfangsminni. Það sem þóttu svartsýnar spár fyrir nokkrum vikum eru nú á meðal bjartsýnustu sviðsmynda.

Ég segi bara, reynum að koma út úr þessu öllu saman með Ísland í uppfærslu 2.0.“ Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir utan ráðherrabústaðinn fyrir viku síðan. 

Þar var hann að tala um þær efnahagslegu aðgerðir sem grípa þurfi til vegna áhrifa kórónuveirunnar hérlendis, sem fyrir liggur að verða umfangsmeiri en sviðsmyndir gerðu ráð fyrir 21. mars, þegar ríkisstjórnin kynnti efnahagspakka sem hún sagði að væri „stærstu einstöku efnahagsaðgerðir sögunnar“.

„Það er engin spurning að efnahagslegu áhrifin af því sem er að eiga sér stað eru miklu meiri heldur en við sáum fyrir í upphafi marsmánaðar,“ sagði Bjarni í viðtalinu, sem var við Stöð 2, á þriðjudag í síðustu viku. Ef svartsýnustu spár um komur ferðamanna fyrir árið 2020 gangi eftir þá sé verið að horfa á mesta samdrátt á Íslandi í heila öld. 

Í lok viku verður kynntur annar efnahagspakki til að bregðast við ástandinu eins og það blasir við nú.

En hvað verður í nýja „pakkanum“? Hvaða áherslur er ríkisstjórnin að fara að leggja áherslu á þar? 

Hverju var lofað síðast?

Aðgerðirnar sem kynntar voru 21. mars voru margskonar. Heildaráhrif þeirra voru sögð vera 230 milljarðar króna, en beinu nýju framlögin vegna hans voru líkast til um þriðjungur þeirrar upphæðar. Sumt þar voru verkefni sem þegar lágu fyrir, til dæmis í fjárfestingu, önnur miðuðu að því að fella niður gjöld sem væru hvort eð er ekki að fara að skila sér nema að litlu leyti, eins og afnám gistináttarskatts, og sum voru einfaldlega tekjuöflunarleiðir fyrir ríkissjóð, eins og það að heimila úttekt á séreignarsparnaði sem yrði þá skattlagður samhliða.

Auglýsing

Stóru beinu aðgerðirnar snerust um hina svokölluðu hlutabótaleið, frestun opinberra gjalddaga, aukinnar fyrirgreiðslu fyrir fyrirtæki hjá banka viðkomandi og því að ráðast í fjárfestingarátak, aðallega í hefðbundnum innviðum sem útheima margar vinnumannahendur.

Hvernig hafa þær aðgerðir nýst?

Fyrir liggur að sá aðgerðarpakki sem var kynntur í mars hafði fyrst og síðast þau áhrif til skamms tíma að gagnast fyrirtækjum sem voru að upplifa skyndilegt frost í tekjuöflun og þeim sem einfaldlega hafa ekki lengur verkefni til að leysa fyrir starfsfólkið sitt. 

Það sést best að tæplega helmingur þeirra um 31 þúsund manns sem fyrir helgi höfðu sótt hafa um hlutabætur, þar sem Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir allt að 75 prósent af launum þeirra fram til 1. júní, eru einstaklingar sem starfa við farþegaflutninga, í gisti- og veitingaþjónustu eða annarri ferðaþjónustu. Miðað við kostnaðarmat sem unnið var fyrir félags- og barnamálaráðuneytið vegna aðgerðarinnar, og Kjarninn hefur undir höndum, mun kostnaður hins opinbera vegna þessa verða vel á þriðja tug milljarða króna fram á núgildandi tímabili. 

Aðrar lykilaðgerðir sneru að því að Seðlabanki Íslands afnam svokallaðan sveiflujöfnunarauka sem stóreykur svigrúm viðskiptabanka til að lána út fjármagn. Alls er það viðbótarsvigrúm metið á allt að 350 milljarða króna. Þá ætlaði ríkið sér að veita ábyrgðir til lánastofnana sem þær gætu svo nýtt til að veita svokölluð brúarlán á mjög lágum vöxtum. Þegar lög um framkvæmdina voru samþykkt hafði hámark ríkisábyrgðar á þessum lánum verið hækkuð upp í 70 prósent. 

Þessi lán hafa enn ekki komið til framkvæmda vegna þess að ekki hefur verið gengið frá samkomulagi milli ríkisins og Seðlabankans um þau. Það samkomulag er þó í lokafrágangi og stefnt er að því að skrifa undir það á fimmtudag.

Aðgerðir fjármálastofnana hingað hafa því, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, fyrst og síðast snúist um að frysta afborganir af lánum viðskiptavina. Stærri fyrirtæki, sem eiga í nánu og miklu samstarfi við bankann sinn eru þar betur sett en lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru með litla eða jafnvel enga fyrirgreiðslu að jafnaði, en þurfa á henni að halda nú um stundir til að komast í gegnum það ástand sem skapast hefur vegna kórónuveirunnar.  

Af hverju þarf meira til? 

Sviðsmyndir, jafnt um þróun mála innanlands, en ekki síður heildrænt í heiminum, eru mun svartari nú en þær voru í lok síðasta mánaðar. Helstu útflutningsgreinar Íslands: ferðaþjónusta, sjávarútvegur og ál (framleitt fyrir íslenska orku sem íslensk fyrirtæki selja) hafa allar orðið fyrir verulegu höggi vegna gríðarlegs samdráttar í neyslu og framleiðslu út um allan heim og þeim ferðatakmörkunum sem eru í gildi vegna baráttunnar við COVID-19. 

Auglýsing

Fyrir liggur að ekki verður hægt að reikna með mörgum, ef einhverjum, erlendum ferðamönnum hingað til lands í ár. Ef ferðatakmörkunum verður aflétt á næstu mánuðum, og ef ferðamenn sýna vilja til að ferðast strax í kjölfarið, mun það verða óvæntur bónus. 

Stjórnvöld telja að ef svartsýnustu spár gangi eftir varðandi komur ferðamanna fyrir þetta ár þá muni Ísland upplifa mesta samdrátt sem landið hefur orðið fyrir í heila öld.  Ljóst er að sá samdráttur verður mun meiri en sá 4,8 prósent samdráttur sem Seðlabanki Íslands kynnti sem svörtustu sviðsmynd sína á blaðamannafundi 25. mars síðastliðinn.

Alls eru yfir 50 þúsund manns annað hvort atvinnulaus eða á hlutabótum, sem er um fjórðungur alls íslensks vinnumarkaðar. Búist er við því að uppsögnum muni fjölga til muna í þessum mánuði.

Líklegt er að fjármála- og efnahagsráðuneyti Bjarna Benediktssonar muni þurfa að hafa aðkomu að samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins, með þau Drífu Snædal og Halldór Benjamín Þorbergsson, í forystu, um tilslakanir til fyrirtækja með eftirgjöf á umsömdum réttindum launþega.
Mynd: Skjáskot

Ráðamenn hafa áttað sig á því að það þarf að stórauka skuldir hins opinbera til að takast á við fyrirliggjandi ástand. Vegna þessa hefur Seðlabanki Íslands til að mynda þegar ákveðið að ráðast í magnbundna íhlutun, sem felur í sér heimild bankans til að kaupa ríkisskuldabréf á eftirmarkaði fyrir allt að 150 milljarða króna. Það er gert til þess að hafa bein áhrif á langtímakröfur á þau bréf, til lækkunar. Á mannamáli þýðir þetta að ríkið mun fá lægri vexti á skuldabréfin sem það þarf að gefa út.

Hvað verður gert næst?

Ráðherranefnd um efnahagsmál fundaði í gær um næsta aðgerðarpakkann og hann verður kynntur í vikulok. Pakkinn mun taka mið af því hvernig samkomuhöftum verður aflétt út sumarið, en í dag var greint frá því að lítið skref verði stigið í þeirri afléttingu 4. maí næstkomandi. Enn verða þó ferðatakmarkanir til og frá landinu til 15. maí hið minnsta.

Fyrsti aðgerðarpakkinn var almennur. Sá pakki sem kemur næst verður með sértækari aðgerðum fyrir ákveðnar tegundir atvinnustarfsemi. Auk þess má búast við því að í honum verði að finna aðgerðir sem muni nýtast heimilum landsins, til dæmis í húsnæðismálum. Þá verða í honum aðgerðir sem hjálpa eiga litlum fyrirtækjum sem þurftu að loka vegna sóttvarnarráðstafana, einyrkjum sem hafa ekki getað sinnt vinnu sinni og námsmönnum, en stór hluti þeirra mun ekki geta gengið að sumarstörfum vísum.

Aðgerðirnar gætu líka verið innlegg í viðræður aðila vinnumarkaðarins um að verkalýðshreyfingin samþykki leiðir til að draga úr kostnaði fyrirtækja, að minnsta kosti til skamms tíma, undir því yfirskini að verja störf. Hingað til hafa slíkar viðræður ekki skilað árangri, en meðal annars hefur verið rætt um að fresta launahækkunum eða að minnka mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði tímabundið.

Lítið verður um komur ferðamanna til Íslands á árinu 2020.
Mynd: Bára Huld Beck

Hlutabótaleiðin verður án efa framlengd í einhverju formi fram yfir 1. juní. Skilyrði fyrir því hverjir geta nýtt sér hana verða hins vegar aðlöguð að breyttum veruleika. Til að byrja með voru þau höfð mjög víð, en verða líkast til þrengri til framtíðar. 

Fyrirliggjandi er að sum fyrirtæki sem settu starfsfólk á hlutabótarleiðina fyrir síðustu mánaðamót munu einfaldlega segja upp fólki fyrir þau næstu, þar sem að leiðin gengur út á að fyrirtækin greiði áfram 25 prósent af launum. Ef ekki er líkindi til þess, samkvæmt sviðsmyndum, að fyrirtækin opni aftur t.d. út árið þá munu þau líkast til ekki vilja greiða þann kostnað áfram. 

Stjórnvöld munu líka frekar vilja nýta framlag sitt til að viðhalda ráðningarsambandi milli atvinnurekenda og launþega í að niðurgreiða störf hjá fyrirtækjum sem eru lífvænleg til lengri tíma.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, talaði á Alþingi í dag um að leggja þyrfti aukna áherslu á matvælaframleiðslu hérlendis og að skoða þyrfti tollamál í því samhengi, meðal annars aukna tollvernd. Þá talaði hann fyrir því að raforkukostnaður garðyrkjubænda yrði lækkaður og að hvatt yrði til frekari innanlandsneyslu á næstu mánuðum. Telja verður líklegt að Sigurður Ingi hafi ekki slegið á þessa strengi nema hann hafi fullvissu um að þessi mál, sem eru pólitísk afar mikilvægt Framsóknarflokknum sem er með sterkt bakland í landbúnaði, muni rata inn í næsta aðgerðarpakka.

Auglýsing


Þá hefur verið í umræðunni að fara þá leið sem til að mynda hefur verið farin í Danmörku, þar sem stjórnvöld hafa ráðist í að greiða út beina styrki til fyrirtækja sem sitja uppi með fastan kostnað á borð við húsaleigu en geta ekki staðið undir honum. Sú leið eru þó umdeild hérlendis sem víðar.

Hvað verður gert til framtíðar?

Í munnlegri skýrslu sinni um um áhrif COVID-19 far­ald­­ur­s­ins og um við­brögð stjórn­­­valda við þeim áhrifum á Alþingi í dag sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að í öllum kreppum felist möguleikar. „Við höfum tæki­færi til að byggja hér upp á sviði nýsköp­un­ar, rann­sókna og þró­un­ar,“ sagði Katrín og bætti við að mögu­lega myndi far­ald­ur­inn virka eins og „hrað­all fyrir fjórðu iðn­bylt­ing­una“ þar sem vænt­an­legar breyt­ingar myndu ganga yfir hrað­ar.

Í ræðu sinni við sama tilefni sagði fjármála- og efnahagsráðherra að hann yrði að vera hreinskilinn og segja að það yrði ekki hægt að lofa öllum að kom­ast efna­hags­lega skað­lausum úr þessu ástandi. „Það er úti­lok­að.“ Bjarni hefur áður talað á sömu nótum og forsætisráðherra gerði í dag og sagt að Ísland ætti að gera ráðstafanir til að undirbúa mikla sókn þegar ástandinu lýkur. Þær ráðstafanir eigi að tryggja meiri afköst, framleiðni og samkeppnishæfni landsins.

Viðmælendur Kjarnans eru flestir sammála um að í því felist meðal annars að gripið verði til umfangsmeiri aðgerða til að styðja við ýmiskonar nýsköpun. Viðmælendur Kjarnans í atvinnulífinu segja að á meðal tillagna sem rætt hafi verið um við stjórnvöld séu að fyrirliggjandi úrræði á borð við hlutabótaleiðina og frestun á skattgreiðslum verði látin ná yfir sprotafyrirtæki og að endurgreiðslur, til dæmis vegna rannsóknar og þróunar, verði hækkaðar verulega. 

Tilgangurinn verður að styðja við starfsemi sem getur verið arðbær til frambúðar, þótt hún sé það ekki endilega í dag.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar