Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra varði rúmlega 4,4 milljónum, að frátöldum virðisaukaskatti, í að birta auglýsingar og fræðsluefni vegna kórónuveirufaraldurins í fjölmiðlum landsins og víðar í mars.
Mest fór í auglýsingar á vefmiðlum, en tæpur fjórðungur heildarfjárhæðarinnar hefur farið í birtingu auglýsinga á mest lesna fréttavef landsins, mbl.is. Þar keypti almannavarnadeild auglýsingar fyrir rúma milljón króna frá því um miðjan mars.
Þetta kemur fram í svari almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Kjarnans, sem barst í gær, þriðjudaginn 21. apríl. Spurt var hversu miklu fé hefði verið varið í birtingu auglýsinganna og hve miklu hefði verið varið á hverjum stað.
Svarið sem barst tekur til auglýsinga sem birtar voru á tímabilinu 13.-31. mars.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur verið að birta þessar auglýsingar til að minna á upplýsingagátt sína á netinu vegna kórónuveirufaraldursins. Vísa vefborðaauglýsingarnar almannavarna þannig inn á á vefsíðuna covid.is, sem almannavarnadeild heldur úti í samstarfi við landlæknisembættið.
Flennistórt auglýsingapláss á mbl.is leigt í þrjá daga
Mest var auglýst á vefmiðlum, eða fyrir um 40 prósent af heildarupphæðinni. Langmest hefur verið greitt fyrir auglýsingar á mbl.is sem áður segir, alls 1.042.000 kr., að frádregnum virðisaukaskatti.
Á næst mest lesna fréttavef landsins, Vísi, var 300 þúsund krónum verið varið í birtingar af hálfu almannavarnadeildar, en minna á öðrum netmiðlum.
Sérstaklega er tekið fram í svari almannavarnadeildar að aðalskýringin á þeirri upphæð sem varið hefur verið í kaup auglýsinga á mbl.is sé sú að dagana 13., 14. og 17. mars voru keyptar „mjög áberandi“ bakgrunnsauglýsingar á mbl.is. Samkvæmt svarinu fékk sú auglýsing vel yfir þrjár milljónir birtinga og skilaði 36 þúsund smellum inn á covid.is, sem almannavarnadeild segir „mjög mikið og hátt hlutfall.“
Almannavarnadeild keypti opnur og heilsíðuauglýsingar hjá Fréttablaðinu fyrir 800 þúsund kr. að frádregnum vsk. og auglýsti einu sinni á heilsíðu í Morgunblaðinu, sem þá var í frídreifingu, fyrir 230 þúsund kr. að frádregnum vsk. Einnig var keypt heilsíðuauglýsing í Mannlífi fyrir 125 þúsund kr., en kostnaðurinn við auglýsingar í dagblöðum nam 26 prósentum af heildarupphæðinni.
Einnig hefur nokkuð verið auglýst í útvarpi, eða fyrir 23 prósent af heildarupphæðinni. Mestu hefur verið varið í auglýsingar á ríkisútvarpsstöðinni Rás 2, eða 400 þúsund krónum að frádregnum vsk. Á Bylgjunni hefur verið auglýst fyrir 355 þúsund kr., á FM957 fyrir 150 þúsund kr. og á K100 fyrir 125 þúsund kr. Á öllum stöðum voru keyptar 12-15 sekúndna auglýsingar sem áttu að heyrast allavega 4-5 sinnum daglega.
Leiknar sjónvarpsauglýsingar frá almannavarnadeild og landlæknisembættinu hafa verið áberandi á RÚV að undanförnu. Samkvæmt svari almannavarnadeildar hefur Ríkisútvarpið „tekið það á sig“ að birta þær endurgjaldslaust.
Almannavarnadeild hefur ekki einungis auglýst í fjölmiðlum, en fram kemur í svarinu að ríflega 220 þúsund kr. hafi verið varið í auglýsingar á Facebook. Einnig hafa verið keyptar auglýsingar fyrir 260 þúsund á strætóskýlum.
Svona skiptast greiðslur vegna birtinga niður:
Árvakur (31,5 prósent af heild)
mbl.is: 1.042.000 kr.
Morgunblaðið 230.000 kr.
K100: 125.000 kr.
Torg (20 prósent af heild)
Fréttablaðið: 800.000 kr.
DV.is: 100.000 kr.
Sýn (18 prósent af heild)
Bylgjan: 355.000 kr.
Vísir: 300.000 kr.
FM957: 150.000 kr.
Ríkisútvarpið (9 prósent af heild)
Rás 2: 400.000 kr.
Aðrir fjölmiðlar (10 prósent af heild)
Stundin.is: 100.000 kr.
Mannlíf: 125.000 kr.
Grapevine.is: 115.000 kr.
Skyn (sem birtir auglýsingar á netmiðlum, t.d. Kjarnanum): 75.000 kr.
Aðrir netmiðlar (t.d. fótbolti.net og eirikurjonsson.is) 35.000 kr.
Aðrir en fjölmiðlar (11 prósent af heild)
Facebook: 220.440 kr.
Strætóskýli: 260.000 kr.