Á aðalfundi Landsbankans sem haldinn var í dag var tók bankaráð hans þá ákvörðun að leggja ekki fram tillögu um 9,5 milljarða króna arðgreiðslu vegna síðasta árs, líkt og stefnt hafði verið að. Þetta var gert í ljós þeirrar efnahagslegu óvissu sem nú ríkir og í samræmi við tilmæli Seðlabanka Íslands til kerfislega mikilvægra banka um að greiða ekki út arð vegna ársins 2019. Auk þess hætti bankaráðið við að heimila endurkaup á hlutabréfum líkt og stefnt hafði verið að. Landsbankinn er í eigu íslenska ríkisins.
Þetta kemur fram í skýrslu bankaráðs Landsbankans sem Helga Björk Eiríksdóttir, formaður þess, flutti á aðalfundinum í dag.
Á nokkrum vikum hefur bindiskylda verið lækkun niður í núll og sveiflujöfnunarauki sem lagðist á eigið fé bankanna afnumin. Aflétting kröfu um sveiflujöfnunarauka á að auðvelda bankakerfinu að styðja við heimili og fyrirtæki með því að skapa svigrúm til nýrra útlána sem nemur að öðru óbreyttu allt að 350 milljörðum króna, eða um 12,5 prósent af núverandi útlánasafni.
Í fundargerð peningastefnunefndar, af fundi sem fór fram daginn áður eða 17. mars, kemur fram að nefndarmenn hennar hefðu verið „sammála um að afar mikilvægt væri að fjármálafyrirtækin nýttu ekki svigrúmið sem við þetta skapaðist til arðgreiðslna.”
Þremur dögum síðar, 20. mars, var sent bréf til Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhald ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum, fyrir hönd Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Þar var farið fram á að hún myndi horfa fram hjá kröfum um ávöxtun og arðgreiðslur á árinu 2020 og að þeim skilaboðum yrði komið áfram til stjórna fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins.
Bjarni var að segja ríkisbönkunum tveimur að í ljósi þeirra aðstæðna sem komnar eru upp vegna COVID-19 heimsfaraldursins þá ættu þeir ekki að greiða út arð.
Arion banki ætlar að hætta við
Arion banki, eini kerfislega mikilvægi bankinn sem er ekki í eigu ríkisins, ætlaði að greiða út umtalsverðan arð til eigenda sinna í ár. Bankinn hagnaðist um 1,1 milljarð króna í fyrra og arðsemi eigin fjár bankans var 0,6 prósent. Til stóð að greiða tíu milljarða króna arðgreiðslu til hluthafa vegna síðasta árs. Það stóð því til að greiða út nífaldan hagnað í arð. Þau áform eru í takti við yfirlýsta stefnu bankans, sem er að öllu leyti í einkaeigu og skráður á hlutabréfamarkað, að greiða út tugi milljarða króna eigin fé hans til eigenda hans.
Eftir að sveiflujöfnunaraukinn var afnuminn skapaðist mikill þrýstingur á bankann að hætta við þau áform en til að byrja með ákvað hann að fresta þeim um tvo mánuði á aðalfundi sínum 17. mars síðastliðinn.
Í síðustu viku var svo boðað til framhaldsaðalfundar í Arion banka þann 14. maí næstkomandi þar sem einungis eitt mál er á dagskrá: að hætta við greiðslu arðs vegna síðasta árs.