Lokunarstyrkur, sem greiddur er til fyrirtækja eða einyrkja sem þurft hafa að loka starfsemi sinni vegna baráttunnar við veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt. Það þýðir að ef þau fyrirtæki sem þiggja styrkina skila hagnaði í ár að meðtöldum lokunarstyrkjum þá þurfa þau að greiða tekjuskatt af þeim hagnaði öllum. Styrkurinn telst þó ekki til skattskyldrar veltu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.
Í frumvarpi um fjárstuðning til minni rekstraraðila, sem var birt á vef Alþingis í gær, kemur fram að til að fá lokunarstyrk þurfi rekstraraðili að uppfylla nokkur skilyrði. Í fyrsta lagi þarf viðkomandi að hafa verið gert skylt að loka vinnustað sínum vegna samkomubannsins eða að láta af því að sinna þjónustu sem hann hefur lífsviðurværi sitt af.
Í öðru lagi þarf viðkomandi að sýna fram á að tekjur hans hafi verið að minnsta kosti 75 prósent minni í apríl 2020 en í sama mánuði árið áður. Ef starfsemin hófst eftir 1. apríl 2019 þá eru tekjur hans í apríl 2020 bornar saman við meðaltekjur á 30 dögum frá því að hann hóf starfsemi og til loka febrúar 2020. Til að fá lokunarstyrk þarf að hafa haft að minnsta kosti 4,2 milljónir króna í tekjur á síðasta ári, eða 350 þúsund krónur að meðaltali á mánuði.
Það má ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta eða skattsektir og viðkomandi má ekki hafa verið tekinn til slita eða gjaldþrotaskipta.
Lítið eftirlit
Stuðningslánin, sem verða veitt með 100 prósent ríkisábyrgð og sem stendur á 1,75 prósent vöxtum, voru líka kynnt í öðrum pakka stjórnvalda í gær og verða lögfest í sama frumvarpi og lokunarstyrkirnir. Þau standa til boða þeim sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 40 prósent tekjufalli á 60 daga tímabili samfellt milli 1. mars og 30. september 2020, miðað við sama tímabil í fyrra.
Lestu meira
Lítið sem ekkert eftirlit verður með umsóknum lokunarstyrki og stuðningslán. Þeim sem sækja um þessa fyrirgreiðslu verður gert að staðfesta við umsókn að þeir uppfylli sett skilyrði fyrir henni, að veittar upplýsingar séu réttar og að „honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.“