Enginn tími fyrir eftirlit með hlutabótaúrræðinu

Vegna álags og tímaskorts hefur Vinnumálastofnun ekki nýtt sér heimild sem hún hefur lögum samkvæmt til þess að spyrja neina atvinnurekendur af hverju þeir eru að nýta sér hlutabótaúrræði stjórnvalda.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, á upplýsingafundi almannavarna.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, á upplýsingafundi almannavarna.
Auglýsing

Vinnu­mála­stofnun hef­ur, sökum álags og tíma­skorts, ekki óskað eftir neinum upp­lýs­ingum eða gögnum frá fyr­ir­tækjum sem hafa skert starfs­hlut­fall starfs­manna sinna um það af hverju fyr­ir­tækin eru að ráð­ast í þessar aðgerð­ir. Þetta segir Unnur Sverr­is­dóttir for­stjóri stofn­un­ar­innar í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans. 

Sam­kvæmt frum­varpi um hluta­bóta­leið­ina, sem sam­þykkt var á Alþingi fyrir mán­uði síð­an, er Vinnu­mála­stofnun heim­ilt að óska eftir rök­stuðn­ingi frá vinnu­veit­endum sem lækka starfs­hlut­fall starfs­manna sinna um það af hverju fyr­ir­tækið þarf að grípa til þess­ara aðgerða.

Blaða­maður spurði Unni að því hvort þetta hefði verið gert, almennt eða í ein­staka til­vik­um, og ef svo væri, hvort slíkt eft­ir­lit af hálfu Vinnu­mála­stofn­unar hefði leitt til þess að ein­hverjum umsóknum ein­stak­linga um hluta­bætur hefði verið hafn­að.

Auglýsing

„Svarið við báðum þessum spurn­ingum er nei. Frá gild­is­töku lag­anna hefur álag vegna mjög margra umsókna í þetta úrræði verið svo mikið að ekki hefur gef­ist tími til að stunda mikið eft­ir­lit,“ segir Unnur í skrif­legu svari sínu, en yfir 34 þús­und manns hafa sótt um hluta­bætur frá því að opnað var fyrir umsóknir fyrir um mán­uði síð­an.

Unnur segir að hjá Vinnu­mála­stofnun hafi verið litið til þess að atvinnu­lífið er „býsna bág­borið um þessar mund­ir“ og staðan hafi versnað hratt á þeim tíma sem lið­inn er frá gild­is­töku lag­anna. Eft­ir­litið hafi því ekki verið í for­gangi.

„Við höfum lagt allt kapp á að koma fólki í greiðslu­kerfin okkar þar sem við vitum að sam­drátt­ur­inn er mik­ill hjá stórum hópi fólks,“ segir Unn­ur.

Vinnu­mála­stofnun hefur þannig ekki upp­lýs­ingar um hvort öll þau fyr­ir­tæki sem eru nú með starfs­menn í skertu starfs­hlut­falli hafi sann­ar­lega upp­lifað sam­drátt í sínum rekstri eða tak­mark­anir vegna aðstæðna í sam­fé­lag­inu. Að því hefur ekki verið spurt.

Í gær til­kynnti rík­is­stjórnin að Vinnu­mála­stofnun fengi allt að 100 millj­óna króna fjár­fram­lag til þess að ráða inn 35 nýja starfs­menn tíma­bundið til næstu sex mán­aða, til að stofn­unin fái betur ráðið við þau verk sem þar falla nú til vegna gríð­ar­legra áhrifa COVID-19 á atvinnu­líf­ið.

Dæmi til staðar um mis­notkun hluta­bóta­úr­ræð­is­ins

Ábend­ingar hafa borist um mis­notkun á hluta­bóta­leið­inni, ekki mjög marg­ar, en ein­hverj­ar. Meðal ann­ars var greint frá því fyrr í mán­uð­inum að Sam­tök atvinnu­lífs­ins túlk­uðu lögin á þann hátt að fyr­ir­tækjum væri heim­ilt að segja upp fólki og láta ríkið greiða hluta af launum starfs­manna á upp­sagn­ar­fresti.

Vinnu­mála­stofnun hefur gefið skýrt til kynna að slíkt sé mis­notkun á úrræð­in­u. Sam­tök atvinnu­lífs­ins hafa sætt sig við þann skiln­ing og eru hætt að ráð­leggja aðild­ar­fyr­ir­tækjum sam­tak­anna að það sé mögu­leg lausn.

Einnig hafa borist ábend­ingar um að fyr­ir­tæki nýti sér hluta­bóta­leið­ina en láti starfs­menn sína svo vinna lengri vinnu­daga en lækkað starfs­hlut­fall segir til um, sem bendir ekki til þess að sam­dráttur hafi orðið í þeim verk­efnum sem fyr­ir­tækið þarf að leysa.

Slíkt fram­ferði var nokkuð til umfjöll­unar í lok síð­asta mán­aðar og var þá for­dæmt af stétt­ar­fé­lögum og einnig Við­skipta­ráði Íslands.

Mark­miðið að hjálpa fyr­ir­tækjum að við­halda ráðn­ing­ar­sam­bandi

Sam­kvæmt grein­ar­gerð með frum­varpi félags- og barna­mála­ráð­herra um hluta­bóta­leið­ina er mark­miðið með hluta­bóta­leið­inni að vinnu­veit­endur haldi ráðn­ing­ar­sam­bandi við starfs­menn sína eins og mögu­legt er, í stað þess að segja fólki upp.

Alls hafa 34.400 umsóknir borist um úrræð­ið, lang­flestar í lok mars, þegar opnað var fyrir úrræð­ið. Yfir 30 þús­und umsóknir hafa verið stað­fest­ar.

Rík­is­stjórnin reikn­aði með því, sam­kvæmt kostn­að­ar­mati sem byggt var á við fram­lagn­ingu frum­varps­ins, að ef 20 þús­und ein­stak­lingar myndu sækja um hluta­bætur vegan lækk­aðs starfs­hlut­fall myndi það kosta rík­is­sjóð 12,8 millj­arða króna, að því gefnu að úrræðið væri í gildi frá 15. maí til 1. júní.

Ljóst er að umsækj­endur um úrræðið eru þegar orðnir meira en 50 pró­sentum fleiri en gert var ráð fyrir í þessu kostn­að­ar­mati, auk þess sem fram hefur komið í máli ráð­herra að ljóst sé að hluta­bóta­leið­ina verði að fram­lengja lengra fram á árið.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiInnlent