Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1.789 hér á landi. Í gær voru þau 1.775 og hefur þeim því fjölgað um fjögur síðasta sólarhringinn. Það eru næst fæstu smit sem greind hafa verið á sólarhring frá því í byrjun mars. Þau fæstu, tvö talsins, voru greind síðastliðinn sunnudag en þá voru framkvæmd mun færri sýnatökur en í gær.
Í gær voru greind smit 0,6 prósent af teknum sýnum en á sunnudag var það hlutfall eitt prósent. Einungis 18 manns hafa greinst með smit á síðustu fjórum dögum.
95 smit hafa greinst á Vestfjörðum þar sem hópsýking braust út fyrir nokkrum vikum.
Í dag eru 749 í sóttkví en í gær var fjöldinn 89. Alls hafa 18.623 lokið sóttkví.
Í dag eru 270 einstaklingar með virk COVID-19 smit en í gær var fjöldinn 313. Þegar mest var, í byrjun apríl, voru virk smit 1.096.
Á sjúkrahúsi liggja 15 sjúklingar vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar af fimm á gjörgæslu, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is. Þeim sem liggja á sjúkrahúsi fækkaði um fjóra síðasta sólarhringinn.
Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru tíu látin.
Samkvæmt því sem fram kemur á COVID.is hafa flest smit greinst í aldurshópnum 18-29 ára.
Fyrsta smitið af kórónuveirunni greindist á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í lok febrúar. Greindum smitum tók að fjölga smám saman í kjölfarið en fjöldinn tók svo stökk 16. mars er 46 greindust. Flest smit greindust 23. mars eða 106.