Gengi bréfa í Icelandair Group hrundi í verði í fyrstu viðskiptum í morgun, eða um 17,24 prósent. Það fór þá niður í 2,4 krónur á hlut sem þýddi að markaðsvirði fyrirtækisins var þá komið í um 13 milljarðar króna. Það hefur jafnað sig aðeins og er nú 2,55 krónur á hlut, en nálgast hratt lægsta gengi sitt frá upphafi, sem var 1,9 krónur á hlut í október 2009.
Hæst reis hlutabréf í Icelandair Group í apríl 2016 og fór þá í 191,5 milljarð króna.
Nokkrar ástæður gætu verið fyrir þessari snöggu dýfu í morgun.
Á miðvikudag sendi félagið frá sér tilkynningu þar sem kom fram að það myndi segja upp fleira fólki og breyta skipulagi félagsins í þessum mánuði. Mikil óvissa ríki um flug og ferðaþjónustu næstu misserin, hvenær ferðatakmörkunum verði aflétt og hvenær eftirspurn muni taka við sér á ný. „Til að bregðast við áframhaldandi óvissu, búa stjórnendur Icelandair Group félagið undir órætt tímabil þar sem starfsemi þess verður í lágmarki en sem stendur eru einungis örfá flug í viku í áætlun félagsins,“ sagði í tilkynningunni.
Stærsti hluthafinn selur
Hin ástæðan fyrir verðfallinu gæti verið sú að í morgun greindi Fréttablaðið frá því að stærsti einstaki hluthafi Icelandair Group, bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PAR Capital Management, hefði selt lítið brot af eign sinni í félaginu, eða 0,2 prósent hlut. PAR Capital keypti sig inn í Icelandair í apríl í fyrra í hlutafjáraukningu sem þá var framkvæmd. Sjóðurinn greiddi þá á 5,6 milljarða króna fyrir 11,5 prósent hlut en á nú 13,5 prósent. Þetta er í fyrsta sinn sem PAR Capital selur í Icelandair frá því að sjóðurinn keypti í félaginu.
Fyrr í þessum mánuði var greint frá því að stjórnendur Icelandair væru nú að leita leiða til að styrkja fjárhag félagsins með því að styrkja hann til lengri tíma. Félagið réð Kviku banka, Íslandsbanka og Landsbankann sem ráðgjafa til að hefja skoðun á mögulegum leiðum til að ná því markmiði. Þá var greint frá því að stjórnendur Icelandair myndu vinna náið með íslenskum stjórnvöldum í því ferli.
Icelandair Group tilkynnti svo í síðustu viku að félagið ætli að ráðast í hlutafjárútboð á næstunni og sækja með því aukið rekstrarfé til hluthafa sinna.
Í ljósi þess að búið er að tilkynna um það að Icelandair ætli sér að sækja meira fé til hluthafa þá vekur það athygli að stærsti hluthafinn sé að selja hluti í félaginu. Virði Icelandair hefur fallið um tæplega 70 prósent það sem af er þessu ári.