„Er jafnréttið afgangsstærð?“ spyr Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, í hugleiðingum í fréttabréfi sínu sem hann sendi út í dag.
Hann segir að það skíni oft í gegn hversu mikið vanti upp á þær djúpu greiningar sem þyrftu að liggja fyrir áður en pólitíkin taki ákvarðanir. Þetta hafi komið óvenju vel í ljós varðandi jafnréttismat á áhrifum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar.
Andrés Ingi bendir á að sama dag og forsætisráðherra sagði að það skipti „miklu máli að við séum með kynjasjónarmið að leiðarljósi í viðbrögðum okkar við Covid 19-faraldrinum“ hafi kveðið við annan tón í greinargerð Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. Þar stendur: „Framangreindar félagslegar aðgerðir voru metnar út frá áhrifum á jafnrétti kynjanna með aðferðum kynjaðrar fjárlagagerðar. Æskilegt hefði verið að meta aðrar aðgerðir með sambærilegum hætti en ekki vannst tími til þess fyrir framlagningu frumvarpsins.“
Þingmaðurinn segir að ef ríkisstjórninni væri alvara með að hafa kynjasjónarmið að leiðarljósi þá hefði hún metið allar aðgerðir sínar út frá áhrifum á jafnrétti. Mat á áhrifum lagasetningar þurfi alltaf að liggja fyrir, ekki bara þegar það henti vel. „Þess vegna lagði ég fyrr í vetur fram frumvarp sem myndi skylda ráðherra til að líta til áhrifa á jafnrétti kynjanna – og reyndar líka loftslagsáhrifa lagasetningar – en í dag eru fjárhagsleg áhrif þau einu sem er skylt að gera grein fyrir.“
Stórundarlegar tillögur inn á milli
Andrés Ingi telur enn fremur að það hafi komið á óvart þegar pakki tvö birtist í þessari viku að hann hafi ekki verið nema þriðjungur af stærð fyrsta pakkans. „Á móti kemur að núna eru aðgerðirnar vonandi hnitmiðaðri og það eru ýmsar góðar félagslegar áherslur í stuðningi við fólk. Inn á milli eru samt stórundarlegar tillögur eins og að láta neytendur lána ferðaskrifstofum fé, frekar en að finna einhverja samfélagslega lausn á vanda ferðaskrifstofanna,“ skrifar hann.
Þá vonast hann til að þingið nái að bæta aðgerðapakkann á næstu dögum, til að mynda með því að meta hagsmuni litlu rekstraraðilana í ferðaþjónustu „sem virðist lítið hafa verið rætt við á fyrri stigum. Og vonandi fást stjórnarliðar til að taka góðar hugmyndir stjórnarandstöðu inn í þessari umferð, frekar en að fella þær núna og endurvinna þær inn í næsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar – eins og gerðist síðast.“