53 þúsund manns eru nú í greiðsluþjónustu hjá Vinnumálastofnun. 35.600 þeirra eru að fá greiðslur vegna skerts starfshlutfalls. „Þetta eru tölur sem við höfum aldrei séð áður,“ sagði Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hún sagði að ólíkt því sem væri að gerast í þróun á fjölda smita af veirunni væri vinna stofnunarinnar ekki á niðurleið en hún sagðist vona að fjöldi þeirra sem þurfa greiðslur sé um það bil að ná hámarki.
Langflestir þeirra sem fá greiðslur hjá Vinnumálastofnun starfa eða störfuðu við ferðaþjónustu eða um 19 prósent. Önnur 19 prósent af heildarfjöldanum er fólk sem var í störfum tengdum ferðaþjónustunni.
Unnur sagði að vissulega væri kreppan djúp „en ég held að við verðum fljót að ná okkur aftur upp. Ferðaþjónustan hefur sýnt það áður og oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að hún er snögg að taka við sér og hröð upp“.
Búist er við því að til uppsagna komi hjá fyrirtækjum nú um mánaðamótin. Engu að síður vonast Unnur til þess að fjöldi þeirra sem fá nú bætur hjá stofnuninni muni ekki aukast mikið þar sem uppsagnir verði mögulega flestar meðal þeirra sem þegar eru komnir í skert starfshlutfall. „Ég er hreinlega að vona það að toppnum sé náð.“