Í nýju haglíkani sem Viðskiptaráð Íslands hefur sett fram um þróun landsframleiðslu til ársins 2030 er gert ráð fyrir að samdráttur í landsframleiðslu á árinu 2020 verði 12,8 prósent. Það samsvarar því að hún lækki um 379 milljarða króna á yfirstandandi ári. Forsendur líkansins eru meðal annars þær að atvinnuvegafjárfesting dragist saman um 40 prósent, að þjónustuútflutningur, sem felur meðal annars í sér ferðaþjónustu, minnki um 59 prósent og að íbúðafjárfesting dragist saman um 25 prósent. Viðskiptaráð telur upphafssviðsmyndina sem dregin er upp þegar farið er inn í líkanið sé „afar dökk en raunsæ“.
Í umfjöllun Viðskiptaráðs segir að efnahagsáfallið sem nú dynji yfir vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum sé óviðjafnanlegt. „Að mati flestra liggur fyrir að kreppan verði sú dýpsta í áratugi og jafnvel aldir, en hversu djúp og langvinn er afar óljóst. Þróunin er þess eðlis að söguleg gögn og haglíkön fanga illa slíkan atburð. Engu að síður skiptir máli að hafa sem skýrasta mynd af þróuninni og þar gegnir þróun landsframleiðslu (VLF) lykilhlutverki enda hefur hún afgerandi áhrif á atvinnustig, kaupmátt, tekjur ríkissjóðs og margt, margt fleira. Segja má að landsframleiðsla setji verðmiða á virði allrar vöru og þjónustu sem framleidd er á Íslandi.“
Hægt er að uppfæra haglíkanið, sem sett er upp í Grid hugbúnaðinum. með því að setja inn eigin forsendur.