Einungis 25 sýni voru tekin á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær og reyndist ekkert þeirra jákvætt, samkvæmt nýjustu tölum á vefnum covid.is. Engin sýni voru tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu í gær.
Því greindist enginn með COVID-19 smit í gær, en hafa ber í huga hve fá sýni voru tekin, margfalt færri en undanfarna daga. Á laugardag voru þannig 199 sýni tekin á veirufræðideildinni og við bættist annar eins fjöldi hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Virkum smitum í samfélaginu heldur áfram að fækka, en þau eru nú 158 talsins og hefur þeim fækkað á hverjum einasta degi síðan 5. apríl, er fjöldi þeirra sem voru með virkan sjúkdóm náði hámarki. Þá voru 1.096 manns með virkan sjúkdóm.
Þrettán manns eru nú á sjúkrahúsi vegna kórónuveirusmits, en einungis einn sjúklingur er á gjörgæslu. 695 manns eru í sóttkví sem stendur, en 18.800 einstaklingar hafa lokið sóttkví.
Alls hafa 46.352 sýni verið tekin á Íslandi til þessa og 1.752 smit hafa greinst í heildina.