Nýlegar skoðanakannanir í Bandaríkjunum hafa valdið áhyggjum í röðum repúblikana, sem óttast að framganga Donalds Trump forseta, meðal annars á daglegum blaðamannafundum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar, sé farin að hafa slík áhrif að hætta sé á að flokkurinn tapi ekki einungis forsetaembættinu til Demókrataflokksins í haust, heldur líka öldungadeild þingsins.
Fjallað var um þetta á vef New York Times um helgina, en þar sagði líka að hörmulegar efnahagshorfur í Bandaríkjunum, þar sem 26 milljónir manna hafa sótt um atvinnuleysisbætur síðasta rúman mánuðinn, væru að kippa stoðunum undan vonum Trumps um endurkjör.
Haft er eftir Glen Bolger, sem hefur lengi verið Repúblikanaflokknum til ráðgjafar í kosningabaráttum, að áætlanir um að heyja kosningabaráttuna í haust á grundvelli góðrar stöðu í efnahagsmálum væru nú alfarið úr sögunni.
Forsetinn hefur farið mikinn á Twitter undanfarna daga, eins og svo oft áður. Hann hefur sérstaklega látið til skarar skríða gegn fjölmiðlafólki, sem hann segir að sé ósanngjarnt og flytji af honum ósannar sögur. Hann hefur líka mært sjálfan sig og frammistöðu sína í forsetaembættinu undanfarnar vikur, misseri og ár.
Á sunnudag sagðist hann sennilega hafa gert meira á þremur og hálfu ári í embætti en nokkur annar forseti, í tístum sem virtust vera beint svar við grein sem New York Times birti síðasta fimmtudag. Fyrirsögn greinarinnar var „Aleinn heima í Hvíta húsinu: Svekktur forseti með stöðugan félagsskap af sjónvarpinu“ og þar var vitnað til aðstoðarmanna forsetans sem lýstu því hvernig dagar hans byrjuðu með sjónvarpsglápi eldsnemma á morgnana og enduðu með því líka.
Forsetanum var lýst sem döprum, í einangrun sinni heima við, nú þegar golfspil og fjöldafundir með stuðningsmönnum eru ekki á döfinni vegna anna og sóttvarnaráðstafana.
Sagt var frá því að forsetinn hefði sívaxandi áhyggjur af því hvernig fjölmiðlar fjölluðu um hann, nú væri staðan jafnvel orðin sú að á fréttastöðinni Fox væru þáttastjórnendur, að hans mati, byrjaðir að fjalla um hann á óvinveittan hátt.
Var ánægður með blaðamannafundina
En það var þó ljós í myrkrinu, samkvæmt aðstoðarfólki forsetans, nefnilega blaðamannafundir Hvíta hússins um veirufaraldurinn, sem Trump hefur notað til þess að ávarpa bandarísku þjóðina undanfarnar vikur.
Þar fannst forsetanum hann skína skært og blaðamannafundanna hlakkaði hann til, samkvæmt því sem haft er eftir aðstoðarmönnum hans í grein Times. Hann hefur sjálfur hreykt sér af því að blaðamannafundirnir fái gríðarmikið áhorf, en eftir harða gagnrýni og háðsglósur sem hann fékk fyrir ummæli sín á einum slíkum á fimmtudag gaf hann það út að blaðamannafundirnir væru ekki verðugir þess að hann eyddi tíma sínum í þá.
Á fimmtudag velti hann því upp, eins og frægt varð, að læknar ættu að skoða hvort mögulega væri hægt að nota sótthreinsiefni eða útfjólubláa geisla til þess að vinna bug á veirunni. Hann veitti aðeins stutt ávarp og svaraði engum spurningum fjölmiðlafólks á föstudag og kom svo ekki fram á blaðamannafundum á hvorki laugardag né sunnudag.
Á sunnudag lét hann þó mikið fyrir sér fara á Twitter og vakti það athygli að hann virtist meðal annars rugla Pulitzer-verðlaununum, sem veitt eru fyrir blaðamennsku vestanhafs, við Nóbelsverðlaunin, í röð tísta þar sem hann sagði meðal annars réttast að lögsækja fjölmiðla fyrir svik og falsfréttir. Tístunum eyddi hann síðar og sagði svo að um „kaldhæðni“ hefði verið að ræða af hans hálfu.
The president is now mixing up Pulitzer prizes with Nobel prizes pic.twitter.com/LP26W3hSFs
— Allan Smith (@akarl_smith) April 26, 2020
Trump sagði, í tísti í gærmorgun, að aldrei í sögunni hefðu fjölmiðlar verið meinyrtari né fjandsamlegri og endurtók enn á ný að „falsfréttir“ væru „óvinur fólksins!“
FAKE NEWS, THE ENEMY OF THE PEOPLE!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 27, 2020
Trump var svo á ný mættur á blaðamannafund í gærkvöldi, sem skipulagður var með skömmum fyrirvara. Eflaust varð það einhverjum repúblikananum til mæðu að sjá Trump snúa aftur í sviðsljósið, en í grein New York Times er haft eftir ónefndum öldungadeildarþingmanni flokksins að daglegar framkomur Trumps á fundunum væru orðnar svo pínlegar að hann gæti ekki horft á þær lengur.
Þá var haft eftir nokkrum nafngreindum kjörnum fulltrúum flokksins að forsetinn gæti vandað skilaboð sín til þjóðarinnar betur og haft þau ögn hnitmiðaðri. Ýmsir hafa mælst til þess að Trump takmarki óbeisluð ræðuhöld sín á fundunum.
Ari Fleischer, sem var fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins þegar George W. Bush fór þar með lyklavöldin, segir að það að vera í pontu í meira en þrjátíu mínútur sé eins og að vera á barnum eftir klukkan tvö á nóttunni.
„Allt það góða er sennilega búið að gerast nú þegar og það eina sem á eftir að ske verður slæmt. Svo drífðu þig af barnum – eða af sviðinu eftir um 30 mínútur,“ ráðlagði hann Trump í samtali við New York Times í gær.
Þurfi að snúast meira um Biden en Trump
Skoðanakannanir sýna að stuðningur við forsetann fer minnkandi meðal almennings og að demókratinn Joe Biden myndi hafa betur í nær öllum þeim ríkjum þar sem teljandi samkeppni verður um kjörmennina í haust.
Nýlegar kannanir sýna einnig að öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins í Arizona, Colorado, Norður-Karólínu og Maine eiga á hættu á að missa sæti sitt. Það myndi, að öðru óbreyttu, þýða að flokkurinn missti meirihluta sinn í öldungadeildinni.
Sumir repúblikanar telja að til þess að flokkurinn eigi að eiga möguleika á að ná vopnum sínum þurfi Trump að stíga úr sviðsljósinu og láta baráttuna snúast meira um að finna höggstað á Joe Biden, sem hefur látið tiltölulega lítið fyrir sér fara síðan að kórónuveirufaraldurinn braust út.