Landsvirkjun hyggst leggja um 12 milljarða króna til ýmissa nýframkvæmda, endurbóta og viðhalds á orkuvinnslusvæðum á næstu þremur árum, veita tímabundna afslætti af raforkuverði til viðskiptavina meðal stórnotenda sem nema um 1,5 milljörðum króna, undirbúa rannsóknar- og þróunarverkefni á Suðurlandi og Norðurlandi í samstarfi við hagaðila í nærsamfélaginu og flýta verkefnum á sviði stafrænnar þróunar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.
Nýlega var tilkynnt að Landsvirkjun myndi greiða 10 milljarða króna í arð til ríkissjóðs í ár, eða meira en tvöfalt hærri upphæð en á síðasta ári. „Með þessum hætti ætlar eitt stærsta fyrirtæki þjóðarinnar að taka þátt í öflugri viðspyrnu atvinnulífsins í því átaki sem er fram undan í atvinnu- og efnahagsmálum eftir kórónuveirufaraldurinn. Á sama tíma verður áfram lögð áhersla á ráðstafanir til að tryggja örugga orkuvinnslu í aflstöðvum, en orkuvinnslan hefur gengið áfallalaust,“ segir í tilkynningunni.
Landsvirkjun mun veita tímabundin úrræði til að koma til móts við hugsanlega rekstrarerfiðleika vegna ástands á mörkuðum í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Stórnotendur fá tímabundna sex mánaða lækkun af kostnaðarverði Landsvirkjunar. Átta af tíu stórnotendum fá lækkun samkvæmt þessu sem getur þýtt allt að 25% lækkun raforkuverðs. Kostnaður Landsvirkjunar vegna afslátta er áætlaður um 1,5 milljarðar króna.
Þá verður framkvæmdum flýtt og ráðist í atvinnuskapandi endurbóta- og viðhaldsverkefni á næstu þremur árum. Meðal nýrra verkefna eru mögulegar undirbúningsframkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar í neðanverðri Þjórsá, s.s. við vegagerð, brúarsmíði og aðstöðusköpun. Þær framkvæmdir myndu þó ekki hefjast fyrr en á árinu 2021.
Fleiri verkefni eru í undirbúningi svo sem samstarfsverkefni um orkutengda nýsköpun og orkuskipti. Þá munu um 220 nemar fá sumarstörf víðs vegar um landið á vegum fyrirtækisins í sumar.
Landsvirkjun vinnur yfir 70% af raforku landsmanna og rekur fimmtán vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur á fimm starfssvæðum fyrirtækisins víðs vegar um landið. Öll raforkuvinnsla Landsvirkjunar hefur gengið eftir áætlun.
Um 80% orkunnar til stórnotenda
Um 80% allrar raforkuframleiðslu Landsvirkjunar er seld til stórnotenda. Stórnotendur Landsvirkjunar eru m.a. Alcoa Fjarðaál, Elkem á Grundartanga, Norðurál á Grundartanga, PCC BakkiSilicon, Rio Tinto Alcan í Straumsvík auk nokkurra gagnavera.
Þjóðin þarf að lyfta grettistaki á komandi mánuðum og árum, til að vinna upp efnahagslegan skaða af heimsfaraldrinum,“ er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í tilkynningunni.„Við hjá Landsvirkjun ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auðvelda eigendum fyrirtækisins þá baráttu. Landsvirkjun stendur vel að vígi og mun áfram geta tryggt örugga orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum og unnið að kolefnishlutleysi 2025. Því til viðbótar grípum við til ýmissa ráðstafana til að styðja við viðskiptavini okkar, ráðast í atvinnuskapandi verkefni og stuðla að orkutengdri og loftslagsvænni nýsköpun.“