Þrjú ný COVID-19 smit greindust á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær, en ekkert hjá Íslenskri erfðagreiningu. Þetta kemur fram á vefnum covid.is. Alls voru 229 sýni tekin til greiningar á sýkla- og veirufræðideildinni og 449 hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Smitin eru því í heildina orðin 1.795 talsins, en virk smit eru nú 149 talsins á landinu öllu. Ellefu manns eru á sjúkrahúsi og einn þeirra er á gjörgæslu, en þær fregnir bárust frá Landspítala í gær að þar er enginn sjúklingur lengur í öndunarvél. 784 einstaklingar eru í sóttkví þessa stundina.
Lögreglan á Vestfjörðum hafði greint frá því fyrr í dag að tvö ný smit hefðu greinst í Bolungarvík í gær, bæði í þekktum smithópum, þannig að þeir smituðu voru þegar í sóttkví.
Um þrjátíu prósent virkra smita á landinu eru nú á norðanverðum Vestfjörðum. Þar, eða nánar til tekið í Ísafjarðarbæ, Súðavík og Bolungarvík, munu sóttvarnaráðstafanir áfram verða harðari en annars staðar á landinu eftir 4. maí.
Það felur í sér að samkomubannið verður miðað við tuttugu manns í stað fimm nú og það mun einnig gilda fyrir börn í leik- og grunnskólum og í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Starfsemi sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar milli fólks verður einnig áfram óheimil.
Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, sagði í hádegisfréttum RÚV að faraldurinn á norðanverðum Vestfjörðum væri einfaldlega einni til tveimur vikum á eftir faraldrinum í landinu almennt, en stefnt væri að því að komast á landslínuna hvað varðar afléttingar samkomubanns þann 11. maí.
Covid-19 Tvö ný smit. Reglur og leiðbeiningar. Upp komu tvö ný smit á norðanverðum Vestfjörðum í gær. Bæði smitin...
Posted by Lögreglan á Vestfjörðum on Tuesday, April 28, 2020