Fríhöfnin, sem er dótturfélag Isavia sem rekur verslunarstarfsemi á Keflavíkurflugvelli, hefur sagt upp 30 af 169 starfsmönnum. Auk þess var 100 til viðbótar boðið áframhaldandi starf en í lægra starfshlutfalli.
Þá verða engar sumarráðningar í framlínustörfum hjá Isavia í ár vegna áhrifa COVID-19 faraldursins. Þær ráðstafanir koma Það kemur til viðbótar við að í lok mars var 101 starfsmanni félagsins sagt upp störfum vegna áhrifa kórónuveirunnar og 37 til viðbótar boðið áframhaldandi starf í lægra starfshlutfalli. Áður en áhrifa COVID-19 fór að gæta var áformað að ráða 140 manns í sumarafleysingar hjá Isavia.
Þar er haft eftir Þorgerði Þráinsdóttur, framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar, að tekjur félagsins hafi dregist saman um 98 prósent. „Frá upphafi faraldursins hefur verið lögð áhersla á að verja störf eins og hægt er. Um síðustu mánaðamót var tekin sú ákvörðun að segja ekki upp föstu starfsfólki en ráða ekki í sumarstörf hjá Fríhöfninni. Málin hafa hins vegar þróast þannig að nú er útlit fyrir að flugumferð muni verða afar takmörkuð næstu mánuði og tímabilið þar sem áhrifa Covid 19 gætir verði lengra en vonast var til.“
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir á sama stað að Isavia sé í þeirri stöðu fjárhagslega að geta enn sem komið er leyft sér að horfa til haustsins en ekki einungis til næstu vikna eða örfárra mánaða. Óvissan um framhaldið í flugtengdum rekstri sé þó enn afar mikil og ekki sé hægt að útiloka að það þurfi að grípa til frekari aðgerða síðar.