Viðbrögð við COVID-19 og næstu skref voru rædd á fjarfundi leiðtoga íhaldsflokka Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í morgun. Öll ríkin hafa gripið til umfangsmikilla ráðstafana til að bregðast við faraldrinum og voru tilslakanir á þeim aðgerðum til umræðu, segir í tilkynningu um fundinn á vef Sjálfstæðisflokksins.
Á fundinum lagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, til að þau lönd þar sem gögn sýndu að tekist hefði að ná tökum á útbreiðslu farsóttarinnar myndu skoða frjálsari för ríkisborgara sín á milli. Undir það var tekið en jafnframt undirstrikað að þau ríki sem ættu aðild að ESB þyrftu einnig að fjalla um það á þeim vettvangi.
Stjórnvöld á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum hafa lagt drög að tilslökunum á sóttvarnaraðgerðum á næstu vikum, en ekki er um samræmdar aðgerðir að ræða, segir í tilkynningunni, enda misjafnt til hversu víðtækra takmarkana hefur verið gripið í hverju landi fyrir sig.
Erna Solberg forsætisráðherra Noregs og formaður Hægriflokksins stýrði fjarfundinum. Auk Bjarna og Ernu sátu fundinn Ulf Kristersson formaður Moderaterna og leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Svíþjóð, Søren Pape formaður danska Íhaldsflokksins, Petteri Orpo formaður Samstöðuflokks Finnlands (Kokoomus), Helir-Valdor Seeder formaður eistneska flokksins Isamaa og Edgars Ikstens frá lettneska flokknum Vienotība.