Stærsti einstaki hluthafi Icelandair Group, bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PAR Capital Management, hefur undanfarið minnkað hlut sinn í félaginu úr 13,7 prósent í 13,2 prósent. Fyrst með því að selja 0,2 prósent hlut og svo aftur með því að selja 0,3 prósent hlut á allra síðustu dögum.
Þetta má sjá á nýbirtum hluthafalista Icelandair Group þar sem fjöldi hlutabréfa í eigu PAR Capital Management, hefur dregist saman um 16,5 milljónir frá því í síðustu viku.
Salan vekur athygli vegna þess að hlutabréf í Icelandair Group eru í mikilli lægð – markaðsvirði félagsins hefur ekki verið lægra frá árinu 2009 – og fyrir dyrum er að félagið sæki stóra hlutafjáraukningu til helstu hluthafa sinna til að komast í gegnum yfirstandandi aðstæður.
Á leiðinni í almennt útboð
Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, sem kom út í morgun er greint frá því að Icelandair Group muni fara í almenn hlutafjárútboð í nánustu framtíð til að tryggja að félagið lifi af þær hremmingar sem það er í sem stendur vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Vegna faraldursins er Icelandair að fljúga um fimm prósent af flugáætlun sinni og í gær sagði félagið upp um tvö þúsund af 4.300 starfsmönnum sínum.
Hlutabréf í Icelandair Group hafa haldið áfram að falla í dag. Virði þeirra hefur ekki verið minna frá árinu 2009.
Lífeyrissjóðir verða í lykilhlutverki
Talið er líklegt að Icelandair muni sækjast eftir allt að 30 milljörðum króna frá hluthöfum og nýjum fjárfestum í komandi hlutafjárútboði. Auk þess standa yfir þreifingar um að ríkið veiti félaginu lánalínur á mjög góðum kjörum.
Næst stærsti eigandinn í Icelandair, á eftir Par Capital Management, er Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 11,8 prósent hlut og þar á eftir koma lífeyrissjóðirnir Gildi (7,24 prósent) og Birta (7,1 prósent). Alls eiga íslenskir lífeyrissjóðir að minnsta kosti 43,6 prósent í Icelandair Group með beinum hætti, en mögulega eiga þeir einnig meira með óbeinum hætti í gegnum nokkra fjárfestingarsjóði sem eiga einnig stóran hlut í félaginu. Þessir lífeyrissjóðir munu þurfa að leggja fram aukið hlutafé eða verða þynntir út í boðuðu hlutafjárútboði. Þeir munu því leika lykilhlutverk í endurfjármögnun Icelandair Group.