Verðbólga mældist 2,2 prósent í aprílmánuði og hækkaði um 0,1 prósentustig milli mánaða. Hún er enn undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands og hefur verið þar frá því í desember 2019.
Í fréttatilkynningu frá Hagstofu Íslands segir að matur hafi hækkað um 1,5 prósent í mánuðinum og verð á nýjum bílum um 2,5 prósent en verð á bensíni og olíum lækkað um 4,6 prósent sem togar fast á móti verðbólgu. Ef húsnæðisliðurinn væri ekki inni í vísitölu neysluverðs, sem mælir verðbólgu, væri hún 1,9 prósent.
Þar ræður miklu að lægra verð á hrávöru alþjóðlega, sérstaklega olíu, og sá mikli slaki sem er að skapast á Íslandi toga á móti hefðbundnum verðbólguhvötum eins og gengisfalli krónunnar, sem hækkar verulega verð á innfluttum vörum eins og mat og bílum.
Verðbólgan fór undir 2,5 prósent markmið Seðlabanka Íslands í desember síðastliðnum en hún náði því þar á undan í júní 2018. Frá þeim tíma reis hún hæst í 3,7 prósent í desember 2018. Fyrir sumarið 2018 hafði verðbólgan verið undir verðbólgumarkmiði frá því í febrúar 2014.