Nú starfsáætlun Alþingis var samþykkt af forsætisnefnd þingsins á miðvikudag. Hún gerir ráð fyrir því að vorþing standi yfir í tæplega tvo mánuði til viðbótar, eða til 25. júní, þegar þingfrestun yrði. Tveimur dögum fyrr myndu fara fram eldhúsdagsumræður.
Starfsáætlun þingsins var tekin úr sambandi 19. mars síðastliðinn vegna COVID-19 faraldursins en nefndir þingsins munu frá og með næsta mánudegi, 4. maí, funda á föstum fundartímum auk þess sem sérstakar fundatöflur verða gerðar fyrir nefndardaga. Áfram verður þó miðað við að nefndarfundir verði fjarfundir og sú tilhögun verði ekki endurskoðuð fyrr en tilmæli sóttvarnarlæknis gefi tilefni til.
Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar var endurskoðuð í apríl vegna COVID-19 faraldursins. Alls hafa 50 mál verið tekin af skránni vegna þessa. Á meðal þeirra eru frumvarp um stofnun hálendisþjóðgarðs og þjóðgarðastofnunar og endurskoðun rammaáætlunar. Þá hefur einnig verið hætt við breytingu á lögum um tengda aðila í sjávarútvegi.