Finnur Árnason, sem hefur verið forstjóri smásölurisans Haga frá árinu 2005, hefur óskað eftir því að láta af störfum. Þá hefur Guðmundur Marteinsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Bónus sem er í eigu Haga, einnig óskað eftir því að hætta. Þeir tveir hafa verið lykilmenn í þeim mikla vexti sem Hagar hafa gengið í gegnum á þessari öld og hófu báðir störf þar fyrir aldarmót.
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að þeir muni báðir starfa áfram þar til að eftirmenn þeirra verða ráðnir.
Guðmundur segir á sama stað að það verði erfitt að kveðja fyrirtækið eftir hartnær þrjá áratugi. „Ég er stoltur af þeim árangri sem við höfum náð og ég kveð það fólk sem ég hef kynnst á þessum tíma með söknuði, þá sérstaklega öflugt og frábært starfsfólk Bónus, sem og samstarfsaðila og viðskiptavini.“
Hagar reka 46 verslanir innan fimm smásölufyrirtækja og tveggja vöruhúsa. Þá rekur félagið 28 Olísstöðvar um land allt auk 41 ÓB-stöð. Meginstarfsemi Haga er á sviði matvöru en innan þess eru tvær af stærstu verslunarkeðjum landsins, Bónus og Hagkaup, svo og stoðstarfsemi á sviði innkaupa og dreifingar.