Forsvarsmenn fjögurra af stærstu hugverkafyrirtækjum sem orðið hafa til á Íslandi, Marel, Össur, Origo og CCP, fagna þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað til að styðja frekar við nýsköpun á Íslandi. Þau hvetja hins vegar Alþingi til að „stíga skrefinu lengra og ráðast þannig í stórsókn í nýsköpun, það mun skila sér margfalt til baka til ríkissjóðs og í fleiri eftirsóttum störfum á Íslandi.“
Þetta kemur fram í umsögn um annan aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar sem þau Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Marel, Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, Finnur Oddsson, forstjóri Origo og Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, skrifa sameiginlega.
Í aðgerðarpakkanum var boðað að ráðast í sérstakar aðgerðir til að örva nýsköpun og sprotastarfsemi. Endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar (R&Þ) verða hækkaðar úr 20 í 25 prósent og þakið á kostnaði sem má telja fram til frádráttar fer að óbreyttu úr 600 í 900 milljónir króna.
Skortur á burðugum hugverka- og hátæknifyrirtækjum
Í umsögn fjórmenninganna kemur fram að ítrekað hafi verið bent á það á undanförum árum að ekki nægilega mörg burðug hugverka- og hátæknifyrirtæki komist á laggirnar hér á landi. Aðgerðirnar sem hafa verið boðaðar muni án efa auka líkurnar á að svo verði. Þrátt fyrir það hvetja þau efnahags- og viðskiptanefnd, sem er með frumvarp um aðgerðirnar til umfjöllunar, eindregið til að gera „breytingar á frumvarpinu og ganga lengra bæði hvað varðar endurgreiðsluhlutfall og þak vegna R&Þ. Það mun hafa jákvæð áhrif á atvinnusköpun til skemmri og lengri tíma og skipta sköpum fyrir viðspyrnu íslensks atvinnulífs á þessum óvissutímum.“
Þau segja að aðgerðirnar nú séu að mörgu leyti rökrétt framhald á þeim stefnumálum sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar var meðal annars kynnt að stefnt væri að afnámi þaks vegna endurgreiðslu á R&Þ á kjörtímabilinu. Ríkisstjórnin hafi stigið sitt fyrsta skref í átt að þessu markmiði þegar ákveðið var að tvöfalda þakið vegna R&Þ fyrir árið 2019. Sú breyting hafi þýtt að fyrirtækin fjögur gátu sótt fram af meiri krafti en ella á starfsstöðvum sínum á Íslandi.
Telja fyrri breytingar hafa skipt sig sköpum
Breytingin hafi til að mynda mikil áhrif á þá ákvörðun CCP að stækka þróunarteymi sitt á tölvuleiknum EVE Online á skrifstofu fyrirtækisins í Reykjavík úr um 80 starfsmönnum í 130.
Marel hefur nýtt sér endurgreiðslukerfið fyrir fjölbreytt og umfangsmikil rannsókna- og þróunarverkefni síðastliðin tíu ár sem krefjast mikillar sérfræðiþekkingar á hinum ýmsu fagsviðum. Á þessum áratug hefur stöðugildum í vöruþróunareiningu Marel á Íslandi fjölgað um rúmlega 100 prósent, eða úr 87 í 180.
Össur starfrækir þróunarstarf á fimm starfsstöðvum í Bandaríkjunum og víðs vegar um Evrópu og þar á meðal í löndum þar sem veittur er fjárhagslegur stuðningur við rannsóknir og þróun. Öflug sóknarstefna til stuðnings nýsköpunar á Íslandi muni auka talsvert við samkeppnishæfni landsins og hvetja til uppbyggingar hér. „Þróunarstarf fyrirtækisins á Íslandi hefur skilað flestum af þeim vörum sem staðið hafa undir vexti í starfsemi fyrirtækisins síðustu tvo áratugi og hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á stoðtækjaiðnaðinn á heimsvísu. Virkni stoðtækja sem og aðgengi að þeim hefur fleygt fram og hefur Össur þar verið í fararbroddi. Þegar kemur að fjárfestingum í þróun á tölvustýrðum stoðtækjum, sem samsvara u.þ.b. fjórðungi af þróunarstarfi á Íslandi, hafa stöðugildi hér á landi tvöfaldast á síðustu 5 árum og kostnaður aukist um 136% á því tímabili. Fjárfesting í þróun á þeim vörum á þessu tímabili hefur numið 2,6 milljörðum kr. en árleg endurgreiðsla vegna þróunarstarfs í heild sinni verið á bilinu 60-120 milljónir kr. Með tilkomu hærri endurgreiðslna vegna þróunarstarfs hefur Össur tækifæri til að tryggja þróunarstarf á Íslandi, sækja enn frekar fram og nýta þann mannauð og þekkingu sem hefur búsetu hér á landi.“