Á ríkisstjórnarfundi í dag var samþykkt tillaga fjögurra ráðherra, þar á meðal formanna allra stjórnarflokkanna, um að ríkið væri tilbúið að eiga samtal um mögulega veitingu lánalínu eða ábyrgð á lánum til Icelandair Group.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að aðkoma stjórnvalda sé háð því að fullnægjandi árangur náist í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins í samræmi við þær áætlanir sem kynntar hafa verið, þar með talið að afla nýs hlutafjár.
Fulltrúum stjórnvalda hafi verið haldið upplýstum um stöðu Icelandair undanfarnar vikur þar sem fram hafi komið að félagið vinnur að fjárhagslegri endurskipulagningu og söfnun nýs hlutafjár.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun að ríkið hefði verið í samskiptum við Icelandair og að sérstakur starfshópur væri nú að störfum til þess að fá upplýsingar um stöðu félagsins til þess að undirbyggja ákvarðanatöku framtíðarinnar.
Það væri skoðun Bjarna að Icelandair væri eitt mikilvægasta fyrirtæki landsins og að allt viðskiptamódelið sem tengist Keflavíkurflugvelli væri í raun og veru undir. Þar af leiðandi hefðu þau í ríkisstjórninni „sett kraft og tekið mjög alvarlega þeirri stöðu sem er uppi komin hjá fyrirtækinu“.