Baráttudagur verkalýðsins fer fram í skugga metatvinnuleysis á Íslandi. Rúmur fjórðungur vinnumarkaðarins er atvinnulaus að öllu leyti eða hluta. Um tólf milljarðar króna verða greiddir út í bætur um mánaðamótin. Allt árið 2009 voru greiddir út 28 milljarðar.
Um 55 þúsund manns eru atvinnulausir að hluta eða öllu leyti eins og sakir standa. Í gær höfðu tæplega 36 þúsund umsóknir borist Vinnumálastofnun um að fara á hlutabótaleiðina svokölluðu, en í henni felst að hið opinbera greiðir allt að 75 prósent af launum viðkomandi upp á tiltekinni upphæð gegn því að atvinnurekandi greiði það sem upp á vantar og viðhaldi þannig ráðningarsambandi.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að stofnuninni reiknist til að um tólf milljarðar króna verði greiddir út til atvinnulausra, og þeirra sem eru í skertu starfshlutfalli, um þessi mánaðamót.
Þúsundum sagt upp í áður óséðum hópuppsögnum
Fjöldi þeirra sem eru alveg án atvinnu hefur rokið upp síðustu daga, sérstaklega eftir að ríkisstjórnin kynnti á þriðjudag úrræði sem felur í sér að ríkissjóður muni greiða stóran hluta launa starfsfólks á uppsagnarfresti. Ekkert frumvarp hefur verið lagt fram um málið og einu upplýsingarnar sem liggja fyrir um framkvæmdina eru þær sem komu fram í orðum ráðamanna á kynningunni á þriðjudag. Þar sagði að ríkisstuðningurinn verði í formi greiðslu að hámarki 633 þúsund krónur á mánuði í allt að þrjá mánuði auk orlofs og muni einskorðast við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir að lágmarki 75 prósent tekjufalli og sjá fram á áframhaldandi tekjufall að minnsta kosti út þetta ár. Hámarkshlutfall stuðnings ríkisins verður 85 prósent en stjórnvöld áætla að fjórðungur fyrirtækja hafi orðið fyrir nægilega miklu tekjutapi til að geta nýtt þennan styrk.
Eftir að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var gefin út hrönnuðust tilkynningar um hópuppsagnir inn til Vinnumálastofnunar. Nú gátu enda fyrirtæki sagt upp fólki án þess að bera kostnað af uppsagnarfresti sem flest þeirra áttu ekki fyrir. Samhliða var, að minnsta kosti í sumum tilfellum, eigið fé og hlutafé varið. Eigendur fyrirtækja gátu haldið eign sinni, sem oft á tíðum felur í sér allskyns atvinnutæki eða húsnæði auk viðskiptasambanda og vörumerkja, en losað sig undan stærsta kostnaðarliðnum í rekstrinum. Þessi aðferð hefur verið kölluð að „leggjast í hýði“.
Í apríl urðu hópuppsagnir alls 51 talsins. Í þeim var 4.210 starfsmönnum sagt upp. Stærsta einstaka uppsögnin var hjá Icelandair Group, sem sagði upp 2.140 manns til viðbótar við þá 230 sem félagið sagði upp í lok mars. Líklegra er enn ekki að þessar tölur muni hækka. Nær öll fyrirtækin sem tilkynntu hópuppsagnir starfa í ferðaþjónustu.