„Ef stjórnvöld og atvinnulífið halda því fram að aðgerðir sem undanskilja almenning hafi ekki afleiðingar þá er það mikill misskilningur. Búsáhaldarbyltingin er ágætis dæmi um það. Þar var fólkið skilið eftir og verkalýðshreyfingin sat með hendur í skauti á hliðarlínunni á meðan fólkinu var fórnað fyrir fjármálakerfið. Sú breyting sem hefur orðið að undanförnu er að verkalýðshreyfingin er ekki á hliðarlínunni lengur og situr svo sannarlega ekki með hendur í skauti. Hún er að vígbúast. Og ef stjórnvöld vilja aðra búsáhaldarbyltingu þá verður hún með þátttöku verkalýðshreyfingarinnar sem bakland. Það mun ekki standa á okkur.“
Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í grein sem hann birtir á heimasíðu þessa stærsta stéttarfélags landsins í tilefni af 1. maí, baráttudegi verkalýðsins.
Óeining hefur verið innan verkalýðsforystunnar undanfarið sem leiddi meðal annars til þess að Ragnar sagði sig úr miðstjórn ASÍ og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði af sér sem fyrsti varaforseti sambandsins. Í kjölfarið ákváðu stéttarfélögin VR, Framsýn og Verkalýðsfélag Akranes að ræða við Samtök atvinnulífsins (SA) um það hvernig hægt er að verja kjarasamninga, kaupmátt og störf án aðkomu ASÍ.
Gæta ekki sætt sig við að fámennur hópur taki allar ákvarðanir
Í greininni segir Ragnar að þótt verkalýðshreyfingin virðist sundurleit í dag þá sé það vegna þess að forsvarsmenn innan hennar eru ekki sammála um leiðir að sama markmiði. Það sé ekki slæmt því betra sé að virkja ólík öfl og ólík sjónarmið í stað þess að sætta þau í kringum lægsta samnefnarann eða aðgerðarleysi eins og við hann segir fólk eiga að þekkja svo vel úr stjórnmálunum.
Ragnar segir að á næstu árum muni þurfa að endurskoða grunnkerfi og vinnumarkaðinn. Það verði ekki gert án aðkomu eða forsendna verkalýðshreyfingarinnar. „Það er því ljóst að verkefnin sem verkalýðshreyfingin þarf að ráðast í á næstu misserum eru æði mörg og því ágætt á degi eins og í dag að minnast þeirra sem á undan hafa komið og rutt brautina.“
Vill upplýsa um hverjir kaupi og selji gjaldeyri
Í greininni skiptir Ragnar stefnumálum VR upp í annars vegar „Vörnina“ og hins vegar „Sóknina“. Á meðal þess sem telst til „Varnarinnar“ er að öllum markmiðum Lífskjarasamningsins verði náð fyrir haustið, að Seðlabankinn noti sinn forða til að halda genginu stöðugu með gjaldeyrisforða eða höftum og að „opið og upplýst almenningi hverjir eru að kaupa og selja gjaldeyri á Íslandi.“
Þá vill hann að vísitala neysluverðs til verðtryggingar á lánum og leigusamningum verði fryst, að ákveðin skref verði tekin til að afnema verðtryggingu neytendalána og að „fjármálafyrirtæki og stofnanir skili vaxtalækkunum og lækkun á bankaskatti til neytenda.“ Ragnar vill enn fremur að beinar greiðslur í gegnum barnabótakerfið og húsnæðisstuðningur verði aukinn, að greiðslur til lífeyrisþega verða hækkaðar og skerðingar þeirra lækkaðar, að fasteignagjöld, leikskólagjöld og fæðiskostnaður skólabarna verði felld niður hjá foreldrum barna sem eru atvinnulausir að hluta eða öllu leyti og að tekjutengdar atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og möguleiki að vera á þeim í sex mánuði eða lengur og viðmiðunartímabil varðandi tekjur verði útvíkkað. Þá vill hann að allur stuðningur hins opinbera við fyrirtæki verði þeim kvöðum háð að þau vinni ekki gegn samfélagslegum gildum og hagsmunum almennings.
Að peningar úr skattaskjólum verði ekki gjaldgengir
Til „Sóknarinnar“ telst að hlutdeildarlánum verði komið á, að stofnframlög í almenna íbúðakerfið verði aukin, að opnað verði fyrir inngöngu í framhalds- og háskóla og á lánamöguleika og styrki í gegnum LÍN og verðtrygging námslána verði felld niður eða þeim breytt í styrk. Ragnar vill líka stórauka og flýta innviðauppbyggingu á vegum ríkisins, útvíkka „Allir vinna" átakið enn frekar, koma á fyrirtækjalýðræði með lögum þar sem starfsfólki verði tryggt sæti í stjórnum fyrirtækja og að ráðist verði í heildarendurskoðun á skattkerfinu með aukinn jöfnuð að leiðarljósi.
Þá vill hann að starfsmönnum fyrirtækja verði boðið að taka þau yfir fari þau í þrot, að eftirlit verði eflt með skattaundanskotum og færslu fjármuna til aflandseyja og að fjármunir úr skattaskjólum verði ekki gjaldgengir í íslensku hagkerfi. Endurskoðun eigi að fara fram á auðlindastefnu þjóðarinnar og tryggja eignarhald almennings til framtíðar, að vinna verði hafin við að endurskoða lífeyris- og almannatryggingakerfið og að umræða verði hafin um óskerta framfærslu. Að lokum vill Ragnar þjóðarátak í nýsköpun með áherslu, hagsmuni og velferð launafólks og umhverfismál að leiðarljósi.