„Nei, þetta er ekki satt. Ég segi það fortakslaust, þetta gerðist aldrei nokkurntíma“ sagði Joe Biden í sjónvarpsviðtali á MSNBC í gær, þar sem hann svaraði alvarlegum ásökunum konu að nafni Tara Reade í fyrsta skipti frá því að þær komu fram fyrir nokkrum vikum síðan.
Reade sakar Biden um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi fyrir 27 árum síðan, vorið 1993 á göngum þinghússins í Washington. Reade starfaði þar sem aðstoðarmaður á skrifstofu Bidens, sem var á þessum tíma öldungadeildarþingmaður.
Reade, sem er í dag 56 ára gömul, sagði í viðtali í hlaðvarpsþætti í mars að Biden hefði króað hana af upp við vegg, káfað á henni innanklæða og stungið fingrum sínum í leggöng hennar, þvert gegn hennar vilja.
Fjölmiðlar vestanhafs hafa síðan þá reynt að leita staðfestingar á ásökununum og rætt við fólk sem hún umgekkst á þessum tíma. Bróðir Reade og nokkrir vinir hennar hafa sagt fjölmiðlum að þeir muni eftir því að hún hafi rætt málið við þá á sínum tíma með þeim hætti sem hún lýsir nú, en yfirmenn hennar og samstarfsmenn í þinghúsinu muna ekki til þess að hún hafi nokkru sinni lýst atviki sem þessu.
Vitnisburðir þeirra sem rætt hefur verið við styðja þannig ýmist við ásökun Reade eða renna stoðum undir neitun Bidens. Ljóst er þó, eins og oftast í svona málum, að einungis þau tvö geta vitað hver sannleikurinn í reynd er.
Eitt af því sem styður við sögu Reade er einnig það að hún var vissulega í hópi kvenna sem stigu fram með kvartanir í garð Biden síðasta vor, um að hann hefði faðmað þær eða snert á óþægilega vegu í gegnum tíðina.
Ásökun hennar á hendur Biden um kynferðisbrot kom þó ekki fram fyrr en núna í marsmánuði, en Reade segir sjálf að hún hafi áður reynt að koma þessari sögu sinni á framfæri við fjölmiðla, sem hafi ekki viljað birta frásögn hennar.
Hvað sem rétt reynist í þessu máli er ljóst að það gæti orðið óþægilegt í meira lagi fyrir Biden, sem hefur í gegnum tíðina stillt sér upp sem baráttumanni gegn kynbundnu ofbeldi. Það er búið að taka framboðsteymi hans margar vikur að ákveða hvernig hann eigi að svara fyrir ásökunina og demókratar eru sagðir hafa áhyggjur af því að málið gæti orðið honum til vansa í komandi baráttu við Donald Trump.
Leitað að skjali sem kannski er til en kannski ekki
Reade segir að hún hafi kvartað undan framferði Biden við mannauðsdeild þingsins eftir atvikið árið 1993, en segir sjálf að hún hafi að vísu einungis kvartað undan áreiti (e. harassment) en ekki þeirri kynferðisárás (e. assault) sem hafi þó átt sér stað.
Biden sagði í gær að ef Reade hefði virkilega kvartað undan atvikinu, eins og hún heldur fram, myndi það skjal finnast í þjóðskjalasafni Bandaríkjanna. Í yfirlýsingu sem Biden birti í gær kallaði hann eftir því að þjóðskjalasafnið leitaði að kvörtuninni sem Reade segist hafa lagt fram. Þjóðskjalasafnið svaraði forsetaframbjóðandanum síðdegis í gær og sagðist ekki hafa gögn um starfsmannamál þingsins. Slík gögn væru í höndum öldungadeildarinnar. Framboð Bidens hefur beðið um frekari leit þar.
„Ég er handviss um að það er ekki neitt. Ég er ekki með neinar áhyggjur af því. Ef það er kvörtun, þá væri hún þar, þar væri hún skjöluð. Og ef hún er þarna, birtið hana. En ég hef aldrei séð hana. Enginn hefur séð hana, svo ég viti til, sagði Biden í viðtalinu við MSNBC í gær.
En ýmsir kalla nú eftir því að Biden taki af allan vafa um hvort þetta skjal sé til og leyfi leit í öðrum skjölum en þeim sem þjóðskjalasafnið eða þingið geymir. Árið 2012 ánafnaði Biden Delaware-háskóla skjöl sín frá 36 ára löngum þingferlinum, einhverja 2.000 kassa af skjölum og 400 gígabæt af rafrænum gögnum. Ekki stendur til að gera skjölin opinber fyrr en Biden hættir í stjórnmálum.
Hann neitar, enn sem komið er, að leyfa leit í þessum skjölum og segir útilokað að einhver gögn um starfsmannamál skrifstofu hans hefðu ratað þangað. Biden sagði í gær að í skjölunum væru viðkvæm gögn frá stjórnmálaferli hans, sem andstæðingar hans gætu nýtt gegn honum í yfirstandandi kosningabaráttu.
Ritnefnd New York Times skrifaði um þetta í gær og sagði að Biden og Demókrataflokkurinn yrðu að taka af allan vafa um málið og leyfa óháðri nefnd að fara í gegnum skjalasafnið í Delaware.
„Jafnvel þó að vissa muni ekki nást í þessu máli á bandaríska þjóðin skilið að fá að vita að hann og Demókrataflokkurinn hafi gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að leiða sannleikann í ljós,“ segir í grein ritnefndarinnar.