Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir í stöðuuppfærslu á Facebook í dag að tvennt þurfi nauðsynlega að gerast sem fyrst vegna COVID-19 faraldursins.
Í fyrsta lagi fjallar hann um öryggi heimilanna. „Það þarf að koma í veg fyrir nauðungarsölur á meðan versta ástandið gengur yfir. Eftir það ætti hið opinbera að nýta sér forkaupsrétt á nauðungarsölum til þess að taka yfir húsnæðislán og gerast lánveitandi í einhvern tíma þangað til endurfjármögnun húsnæðis fæst frá annarri lánastofnun,“ skrifar hann.
Til viðbótar við þetta þurfi skýrar aðgerðir fyrir leigjendur og leigumarkaðinn. Þó sé ekki ólíklegt að leigumarkaðurinn „lagfæri sjálfan sig eitthvað á næstu mánuðum út af fækkun skammtímaleigu“. Þó þurfi að fylgjast vel með á þeim vettvangi.
Þarf að hugsa til næstu mánaða
Í öðru lagi telur þingmaðurinn að hugsa þurfi strax hvað gerist næst. „Í augnablikinu er ríkissjóður að hella ofan í ástandsholuna. Blessunarlega var hlustað á ábendingar stjórnarandstöðunnar um aukningar í nýsköpun þar sem tækifæri framtíðarinnar munu koma til með að verða til. Það þarf hins vegar líka að hugsa um allra næstu mánuði. Það væri til dæmis hægt að leggja til uppbyggingar út um allt land á aðstöðu eins og Blábankinn á Þingeyri er með. Aðstöðu fyrir stafrænar smiðjur og vettvang fyrir nýsköpunarsamvinnu almenna og opinbera markaðarins. Nokkurs konar PPP (private, public partnership) nýsköpunarhraðall þar sem allir sem eru á atvinnuleysisbótum geta komið og fengið tækifæri til þess að vinna að einhverjum verkefnum, sínum eigin eða annarra, án þess að missa bæturnar (þrátt fyrir að einhverjar tekjur fengjust út úr þeim verkefnum sem þar myndu skapast).“
Hann segir að frábært væri að fá fólk til þess að koma saman og leggja línurnar til framtíðar fyrir hvert nærsamfélag fyrir sig. Til þess þurfi vettvang sem eðlilegt sé að hið opinbera útvegi á einhvern hátt.
„Þetta eru tvær mjög einfaldar aðgerðir sem leggja línurnar til framtíðar. Að fólk missi ekki þakið ofan af sér og fær vettvang til þess að búa til ný tækifæri,“ skrifar hann að lokum.
Tvennt sem þarf nauðsynlega að gerast sem fyrst. 1. Öryggi heimilanna. Það þarf að koma í veg fyrir nauðungarsölur á...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Monday, May 4, 2020