Þórunn Egilsdóttir, þingmaður og þingflokksformaður Framsóknarflokksins, snýr aftur til starfa á Alþingi í dag eftir að hafa verið í veikindaleyfi síðan í mars í fyrra. Þá greindist hún með brjóstakrabbamein og þurfti að fara í harða meðferð til að vinna bug á meininu.
„Liðið ár hefur verið bæði lærdómsríkt og krefjandi. Full þakklætis fyrir góðan árangur horfi ég bjartsýn og hress til framtíðarinnar,“ segir Þórunn í færslu sem birt var á Facebook-síðu Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í gær.
Þar birti Þórunn mynd af sér ásamt Þórarni Inga Péturssyni, varaþingmanni flokksins í kjördæminu, sem tók þingsæti Þórunnar í veikindaleyfinu. Hún þakkar honum fyrir að stíga inn með stuttum fyrirvara og leysa sig af „með miklum sóma.“
Þórunn er þingflokksformaður Framsóknarflokksins og hefur verið í því embætti allt frá 2016, en Willum Þór Þórsson hefur leyst hana af frá því að hún fór í leyfi.
Hún hefur setið á þingi frá árinu 2013 og á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, allsherjar- og menntamálanefnd og kjörbréfanefnd.
Ágætu félagar og vinir Á morgun, mánudaginn 4. maí mun ég koma aftur til starfa eftir rúmlega 13 mánaða veikindaleyfi....
Posted by Framsókn í Norðausturkjördæmi on Sunday, May 3, 2020