Icelandair Group tapaði 30,9 milljarði króna á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Á árunum 2018 og 2019 nam samanlagt tap félagsins tæplega 14 milljörðum króna. Það tapaði því rúmlega tvisvar sinnum hærri upphæð frá áramótum og út marsmánuð 2020 en það gerði á tveimur heilum árum þar á undan.
Ársfjórðungsuppgjör Icelandair Group var birt í kvöld og afkoman var hörmuleg líkt og reiknað hafði verið með. Fyrsti ársfjórðungur er vanalega slakur í rekstri flugfélaga enda utan hefðbundins háannatíma. Í fyrra tapaði Icelandair til að mynda 6,7 milljörðum króna á honum. Tapið á fyrsta ársfjórðungi í ár er því 23,4 milljörðum krónum meira en það var á sama tíma í fyrra.
Ástæðan er vitanlega að langmestu leyti áhrif útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum og þær yfirgripsmiklu ferðatakmarkanir sem þær höfðu í för með sér. Einskiptiskostnaður vegna áhrifa kórónuveirunnar á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 23,3 milljörðum króna.
Ljóst er að apríl og næstu mánuðir voru ekki til að bæta stöðu Icelandair. Félagið flaug undir fimm prósent af flugáætlun sinni í síðasta mánuði.
Icelandair sagði upp 2.140 manns í síðustu viku til viðbótar við þá 230 sem félagið rak í lok mars. Í síðustu viku tilkynntu stjórnvöld um að þau myndu greiða stóran hluta launa starfsfólks fyrirtækja eins og Icelandair í uppsagnarfresti og að þau myndu skoða að lána félaginu eða ábyrgjast lán til þess ef það tækist að endurskipuleggja sig fjárhagslega. Sú endurskipulagning felur í sér að biðla til kröfuhafa að breyta kröfum í hlutafé og að auka hlutafé félagsins um 30 þúsund milljón hluti, sem myndi þynna núverandi hluthafa að óbreyttu niður í sameiginlega 15,3 prósent eign. Vonir standa til að Icelandair geti safnað 29 milljörðum króna í nýtt hlutafé með þessum hætti.
Virði bréfa í félaginu hrundi í dag, alls um 19,8 prósent, og stendur í 1,9 krónum á hlut. Það hefur aldrei verið lægra og er nú í fyrsta sinn undir tveimur krónum á hlut. Markaðsvirðið er nú 10,3 milljarðar króna. Tap Icelandair Group á fyrstu þremur mánuðum ársins var því þrefalt núverandi markaðsvirði félagsins.