Brattar brekkur víkja en útsýnið ekki

Það segir sína sögu um Strandaveg að Vegagerðin segir hann snjóþungan „jafnvel á vestfirskan mælikvarða“. Nú á að gera nýjan og malbikaðan veg um Veiðileysuháls sem í dag einkennist af kröppum beygjum og bröttum brekkum. Og stórkostlegu útsýni.

Strandavegur liggur nú milli hótelsins í Djúpavík og sjávar. Áformað er að færa hann ofan byggðarinnar.
Strandavegur liggur nú milli hótelsins í Djúpavík og sjávar. Áformað er að færa hann ofan byggðarinnar.
Auglýsing

Góð hreyfing er á ný komin á helsta baráttumál íbúa Árneshrepps á Ströndum til áratuga: Bættar vegasamgöngur. Til stendur að leggja nýjan veg um Veiðileysuháls og að framkvæmdum loknum verður mögulegt að halda veginum á milli Bjarnarfjarðar og Djúpavíkur opnum allan ársins hring.

 „Nýr Strandavegur um Veiðileysuháls verður lagður til að bæta samgöngur á Ströndum,“ segir í tillögu að matsáætlun Vegagerðarinnar um nýja veginn. „Á rekstrartíma geta bættar samgöngur haft margvísleg áhrif, t.d. á byggð á svæðinu, tengingu milli landshluta, ferðamennsku, útivist og opinbera þjónustu. Betri samgöngur munu hafa í för með sér meiri umferð um svæðið, sem hefur áhrif á ferðamennsku og útivist. Traustar og áreiðanlegar samgöngur eru undirstaða sterks og heilbrigðs atvinnulífs.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem til stendur að fara í þessar framkvæmdir. Þær hafa verið fyrirhugaðar í mörg ár en oft frestast, íbúum Árneshrepps til mikilla vonbrigða. Og þó að Veiðileysuhálsinn sé mikill farartálmi að vetri er vegurinn um Kjörvogshlíð það ekki síður og að mati Vegagerðarinnar verður áfram erfitt að halda þeim vegi opnum að vetrarlagi.

Auglýsing

Strandavegur er um 93 kílómetra langur. Hann liggur frá botni Steingrímsfjarðar að Krossnesi í Norðurfirði. Hann er eini vegurinn sem liggur inn í Árneshrepp, nyrsta sveitarfélags Strandasýslu og þess fámennasta á landinu. Frá áramótum og fram í mars ár hvert er hann oftast ófær enda ekki mokaður á þessu tímabili nema í undantekningar tilvikum.

Á blómaskeiði byggðarinnar í Árneshreppi, á árum seinni heimsstyrjaldar, voru tvö lítil þorp í sveitarfélaginu, Djúpavík og Gjögur. Þá bjuggu á sjötta hundrað manns í hreppnum, en 1. janúar 2019 voru skráðir íbúar 40.

Samgöngubætur hafa verið Strandamönnum ofarlega í huga í áraraðir. Árið 1950 segir í Samvinnunni, blaði Sambandsins, að vegir í hreppnum séu mjög slæmir „víðast aðeins götutroðningar“. Flutningar að og frá heimilum væru því ennþá að mestu á sjó og hestum „en alloft kemur samt fyrir að menn verða að leggja pjönkur sínar á eigið bak því á veturna er oft ófært með hesta“.

Ný sýsla úr myndasafni Þorsteins Jósepssonar hefur nú verið skráð í Sarp og fylgja henni myndir. Það er Strandasýsla og...

Posted by Þjóðminjasafn Íslands/ National Museum of Iceland on Wednesday, May 15, 2019

Haustið 1964 er frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Lítið vantar á að bílfært verði um Norður-Strendur“. Þá um sumarið hafði vegur verið lagður að Veiðileysufirði. Í október ári síðar dregur svo til tíðinda og í Morgunblaðinu segir: „Einangrun Árneshrepps rofin“. Í fréttinni kemur fram að búið sé að gera veg yfir Veiðileysuhálsinn og greinarhöfundur lýsir bílferð sinni um veginn. „Skammt fyrir innan Seljaá í Veiðileysufirði mættum við tveimur Ingólfsfirðingum, sem voru á leið suður til Reykjavíkur. Þetta voru þau Gunnar Guðjónsson sýslunefndarmaður í Árneshreppi, er býr á Eyri í Ingólfsfirði og kona hans Guðbjörg Pétursdóttir. Munu þau vera fyrstu íbúar norðan Veiðileysu er fara landveg suður.“

Frétt í Morgunblaðinu haustið 1964 um að lítið vanti upp á að hægt sé að komast á bíl til nyrsta hluta Árneshrepps.

Einnig var í greininni rætt við Guðjón Magnússon oddvita hreppsins sem sagði: „Nú er þessum langþráða áfanga náð. Vegurinn mun rjúfa einangrun þá er við höfum orðið við að búa til þessa.“

Þó að vegurinn um Veiðileysuháls og hreppinn allan hafi upp úr miðri síðustu öld verið gífurleg samgöngubót er hann barn síns tíma; mjór, hlykkjóttur malarvegur, lítið uppbyggður en oft niðurgrafinn.

Strandavegur er með bundnu slitlagi að Bjarnarfjarðará í Bjarnarfirði. Þar tekur mölin við þar til vegurinn endar í Norðurfirði, fyrir utan örstutta malbikaða kafla við nokkra bæi. Hann liggur meðfram sjónum nema á Veiðileysuhálsi þar sem hann fer í 250 metra hæð yfir sjávarmáli.

Morgunblaðið haustið 1965. Veiðileysuhálsinn orðinn bílfær.

Þeir sem ekið hafa Strandaveg vita að hann liggur í gegnum stórbrotið landslag. Ströndin er víða vogskorin og há hamrafjöll gnæfa yfir. Sá kafli vegarins sem nú er áformað að breyta og bæta nær frá ánni Kráku í Veiðuleysufirði að Kjósará í Kjósarvík. Sá vegspotti er í dag 11,6 kílómetra langur. Hann liggur yfir Kráku og fer svo upp eftir Tvíhlíð undir Miðdegisfjalli og í hálfhring upp á Veiðileysuháls. Þaðan liggur hann niður brekkur Kúvíkurdals í átt að Reykjarfirði og svo í neðanverðum bröttum hlíðum fjarðarins að Djúpavík. Á suðurströnd Reykjarfjarðar liggur vegurinn í gegnum byggðina í Djúpavík og eru aðstæður þar þröngar og hættulegar. Þaðan liggur hann meðfram sjónum um Kjósarnes og endar rúmlega 200 metrum vestan Kjósarár í Kjósarvík.

Vegurinn er seinfarinn og hættulegur, með mætingarútskotum, kröppum beygjum – sumum mjög kröppum – og víða er halli 12 prósent eða meira. Reykjarfjarðarmegin, á leiðinni inn í Djúpavík, er snarbratt í sjó fram. Hann telst ekki til heilsársvega enda mjög snjóþungur „jafnvel á vestfirskan mælikvarða,“ eins og það er orðað í skýrslu Vegagerðarinnar.

Nýja veglínan er gul en núverandi vegur er appelsínugulur. Mynd: Vegagerðin

Nýi vegurinn mun að ákveðnu leyti fylgja veglínu sem lögð er til í aðalskipulagi Árneshrepps. Reykjarfjarðarmegin á Veiðileysuhálsi víkur nýr vegur frá skipulagslínunni til að komast hjá snjóþungu svæði. Þá fyrirhugar Vegagerðin að færa veginn um Kjósarhöfða ofan við byggðina í Djúpavík. Breyta þarf aðalskipulagi sveitarfélagsins í samræmi við þetta.

Nýr vegur mun fylgja núverandi vegi á stuttum köflum en fara á öðrum stöðum yfir lítt raskað land sem er að stórum hluta nýtt sem beitiland sauðfjár.

Mögulegt framkvæmdasvæði er á jörðunum Veiðileysu, Kúvíkum og Kjós. Heilsársbúseta er í Djúpavík og þar er rekið hótel. Veiðileysa fór í eyði árið 1961 en þar er gamla íbúðarhúsið nýtt sem sumarhús. Búsetu í Kúvíkum lauk árið 1949 en þar eru nú tveir sumarbústaðir. Í Djúpavík eru nokkur frístundahús og einnig gömul íbúðarhús sem nýtt eru sem frístundahús.

Æskilegt að ferðalangar haldi útsýninu

Vegurinn verður lagður bundnu slitlagi til að auka þægindi vegfarenda, auðvelda og draga úr viðhaldi, forðast rykmengun og draga úr eldsneytiseyðslu og um leið draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Miðað er við að mesti halli verði 8,5 prósent. Hann verður hærri og breiðari en núverandi vegur því miðað er við að draga úr hættu á snjósöfnun. „Víða er mjög fallegt útsýni af veginum um Veiðileysuháls í dag og „æskilegt er að ferðalangar eigi áfram kost á að njóta útsýnisins,“ segir í skýrslu Vegagerðarinnar.

Áætlað er að kostnaður vegna vegaframkvæmdanna sé um 700 milljónir króna.  Áætlaður framkvæmdatími er þrjú ár. Miðað er við að hægt verði að bjóða verkið út um leið og undirbúningi lýkur og fjárveitingar og öll leyfi liggja fyrir.

Strandavegur ofan á Veiðuleysuhálsi. Mynd: Helga Aðalgeirsdóttir/Vegagerðin

Í tillögu að matsáætlun kemur fram að veglínan kunni að breytast að einhverju leyti á næstu mánuðum. Rannsóknir á svæðinu hófust síðasta haust en munu að mestu fara fram í sumar, m.a. á fornleifum. Gengið verður frá rannsóknarskýrslum fyrri hluta næsta vetrar. Vegagerðin mun svo í framhaldinu vinna að hönnun framkvæmdar og gerð frummatsskýrslu. Áætlað er að skýrsla um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verði send Skipulagsstofnun til formlegrar athugunar næsta sumar.  Að fjórum vikum liðnum muni stofnunin gefa álit sitt á hinni fyrirhuguðu framkvæmd.

Stiklað á stóru í sögu byggðarinnar

Byggðin í Árneshreppi á Ströndum á sér langa og merkilega sögu. Þar komu landnámsmenn sér fyrir við upphaf Íslandsbyggðar og þó að undirlendi sé lítið og stórkostleg fjöllin og víðfeðmar heiðar geri samgöngur á landi oft á tíðum erfiðar hafa Norður-Strandir haldist í byggð. Að vetri búa þó fáir í sveitinni en um leið og vorar fjölgar fólkinu. Strandveiðar eru stundaðar frá Norðurfirði þaðan sem stutt er í gjöful fiskimið. Mörgum eyðibýlunum er vel við haldið og þar dvelja afkomendur síðustu ábúendanna margir hverjir sumarlangt.

Í skýrslu Vegagerðarinnar er stiklað á stóru í sögu byggðarinnar og þar byggt á upplýsingum úr aðalskipulagi Árneshrepps.

Kúvíkur við Reykjarfjörð voru í hópi eldri verslunarstaða landsins þar sem Danir ráku verslun. Árið 1912 þegar Gjögur fékk löggildingu sem verslunarstaður lagðist verslun í Kúvíkum af og byggð eyddist.

Miðnætursólin í Árneshreppi er mikið aðdráttarafl að sumri. Hér sést hún um miðja nótt í Trékyllisvík. Mynd: Sunna Ósk Logadóttir

Djúpavík, sem stendur við samnefnda vík, var útgerðarstöð frá árinu 1917. Fyrstu þrjú sumrin var þar rekin umfangsmikil síldarsöltun og reist verslunar- og íbúðarhús ásamt síldarplönum og bryggjum. Á árunum 1934-35 var reist fullkomin síldarverksmiðja á staðnum en starfrækslu verksmiðjunnar var hætt árið 1952. Miklar byggingar síldarverksmiðjunnar frá blómaskeiði síldaráranna standa enn. Flest gömlu íbúðarhúsin standa ennþá og nýtast sem frístundahús. Í Djúpavík er nú hótelrekstur og veitingasala allan ársins hring.

Gjögur er fornfræg veiðistöð við norðanvert mynni Reykjarfjarðar. Áður fyrr voru hákarlaveiðar stundaðar þaðan í miklum mæli og því voru þar fjölmargar verbúðir. Á fyrri hluta 20. aldarinnar voru talsverð umsvif á Gjögri og þar bjuggu um 60 manns þegar flest var, en nú er svo komið að þar býr enginn lengur. Þar eru frístundahús, gömul og ný, sem notuð eru til sumardvalar. Á Gjögri er flugvöllur og yfir hávetrartímann er flugið eina samgönguæðin til og frá sveitinni.

Trékyllisvík er búsældarlegasta byggð á Norður-Ströndum og má telja hana til miðstöðvar hreppsins. Á þessu svæði er Finnbogastaðaskóli, íþróttavöllur, kirkjurnar í Árnesi og félagsheimilið í Trékyllisvík, ásamt flestum bújörðum sem enn eru í ábúð í hreppnum. Þar er einnig minja- og handverkshúsið Kört. Finnbogastaðaskóli hefur verið lokaður í tvö ár og eina barnið sem er með lögheimili í sveitarfélaginu hefur gengið í skóla á Drangsnesi.Síldarverksmiðjan í Ingólfsfirði stendur enn þó að rekstrinum hefði verið hætt árið 1952. Mynd: Sunna Ósk Logadóttir

Í Norðurfirði hefur verið rekin verslun frá árinu 1903. Á mestu uppgangstímum í hreppnum, þ.e. á tímabilinu upp úr 1920 og fram á miðja þá öld, voru einnig minni verslanir reknar á Gjögri, í Djúpuvík og á Eyri í Ingólfsfirði. Í Norðurfirði er rekin verslun, útibú Sparisjóðs Strandamanna og kaffihús yfir sumartímann. Í Norðurfirði er góð höfn.

Á Krossnesi utanvert við Norðurfjörð er jarðhiti og útisundlaug. Krossnessundlaug er niðri í fjöru og útsýnið er stórkostlegt og litbrigðin geta verið einstök þegar sólin er að setjast.

Við Ingólfsfjörð hófst síldarsöltun á nokkrum stöðum árið 1915. Árið 1952 brugðust síldveiðar á Húnaflóa og þá var verksmiðjurekstri í Ingólfsfirði hætt. Á stríðsárunum höfðu breskir hermenn aðstöðu firðinum. Á Eyri við Ingólfsfjörð var reist verksmiðja í lokin á síldarævintýrinu. Hún stendur ennþá. Þar eru nokkur hús sem notuð eru til sumardvalar.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Lífskjarasamningurinn leiðir launaþróun en ekki opinberir starfsmenn
Kjarninn 6. maí 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir
Vonandi hægt að aflétta nokkuð hratt á næstu vikum
Helsta áskorunin í faraldrinum nú er sá fjöldi ferðamanna sem hingað er að koma sem er umfram spár. Breyta gæti þurft fyrirkomulagi á landamærum því heildargeta til skimunar takmarkast við 3-4.000 sýni á dag.
Kjarninn 6. maí 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 36. þáttur: Nunnusjóguninn II
Kjarninn 6. maí 2021
Deilan snýst um verksamning á milli ÍAV og 105 Miðborgar um fyrstu þrjú húsin sem eru þegar risin á reitnum í Laugarnesi. Hér má sjá tölvuteikningu af því hvernig áformað er að svæðið líti út í framtíðinni.
ÍAV stefna og setja fram 3,8 milljarða kröfur vegna deilu á Kirkjusandsreit
Íslenskir aðalverktakar eru búnir að stefna Íslandssjóðum og félaginu 105 Miðborg til greiðslu 3,8 milljarða króna vegna deilu um verksamning á Kirkjusandsreit. Verktakafyrirtækið missti verkið í febrúarmánuði.
Kjarninn 6. maí 2021
Andrés Ingi Jónsson
Þegar Tyrkir þjörmuðu að þingmönnum
Kjarninn 6. maí 2021
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Síldarvinnslan einnig í vandræðum með tæknilegu hliðina á aðalfundi SFS
Mistök urðu þess valdandi að Síldarvinnslan náði ekki að greiða atkvæði í kjöri til stjórnar SFS á aðalfundi á föstudaginn. Tillaga um að greiða atkvæði á ný var þó samþykkt í kjölfarið, en þá lentu Samherji og Nesfiskur í svipuðum vandræðum.
Kjarninn 6. maí 2021
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í dómsal í dag.
„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
Það er mat ákæruvaldsins að Marek sé ekki að segja nákvæmlega allt sem hann muni frá deginum sem bruninn á Bræðraborgarstíg varð. Verjandi fer fram á að ef hann verði fundinn sekur og ósakhæfur verði hann ekki dæmdur til öryggisgæslu.
Kjarninn 5. maí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir ljóst að spennandi tímar séu framundan, vegna fyrirhugaðrar sölu ríkisins á hluta af hlut sínum í Íslandsbanka.
Íslandsbanki hagnaðist um 3,6 milljarða á fyrsta ársfjórðungi
Eigið fé Íslandsbanka nam 185 milljörðum króna í lok mars. Bankastjórinn segir spennandi tíma framundan, í ljósi þess að stefnt sé að skráningu bankans á verðbréfamarkað að undangengnu útboði á hluta af hlut ríkisins í honum.
Kjarninn 5. maí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent