Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, vakti máls á frumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum undir dagskrárliðnum störf þingsins í dag.
Hann sagði að nú þráskallaðist ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur við að leggja fram þetta frumvarp í þriðja sinn. Nú á tímum þar sem lítið beri á því, eins og til að lauma því framhjá þjóðinni.
Þingmaðurinn vitnaði í ávarp Katrínar til þjóðarinnar sem hún hélt sunnudagskvöldið síðastliðið en þar sagði hún: „Frá og með morgundeginum hefjum við vegferð okkar, skref fyrir skref í átt að bjartari dögum.“ Hann benti á að nú væri kominn dagurinn eftir þennan morgundag og hann spurði: „Og hvað gerist þá?“
Stórhættulegt og margtuggið frumvarp
„Frekar en að sjá eintóm fyrirheit um bjartari daga á dagskrá þingfundar birtist gamall kunningi. Stórhættulegt og margtuggið frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum,“ sagði Andrés Ingi.
Hann rifjaði það upp að frumvarpið hefði vakið hörð viðbrögð þegar Sigríður Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, birti það á samráðsgáttinni fyrir um ári síðan og þegar Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir lagði það fram á þingi.
„Þetta er fólkið sem við sjáum reglulega í fjölmiðlum“
Andrés Ingi sagði að versta breytingin í frumvarpinu væri lúmsk, bara brottfall á einum staflið, en hefði það í för með sér að stór hópur fólks sem sækir hér um alþjóðlega vernd ætti svo til enga von á að fá hana.
„Þetta er fólkið sem við sjáum reglulega í fjölmiðlum, fjölskyldur á flótta og fólk sem glímir við veikindi, barnshafandi konur, nýburar og börn í íslensku skólakerfi. Fólk sem hefur fengið hæli í ríkjum eins og Grikklandi þar sem fólk býr árum saman í tjaldbúðum án aðgangs að rafmagni og vatni.
Ríkjum eins og Ungverjalandi og Búlgaríu þar sem flóttafólk á á hættu að vera beitt ofbeldi af lögreglunni. Ríkjum sem geta ekki tryggt því mannsæmandi aðstæður þannig að fólk leggst á flótta undan kerfinu sem á að vernda það,“ sagði hann.
Ekki hægt að skreyta sig samstöðu en snúa svona baki við flóttafólki
Þingmaðurinn sagði jafnframt að fella ætti niður lagaheimildina sem gerði Íslendingum kleift að leyfa þessu fólki að vera. „Verði þetta frumvarp að lögum hefur hvorki Útlendingastofnun né kærunefnd útlendingamála einu sinni heimild til að taka mál þessa fólks til umfjöllunar.
Það er ekki hægt að skreyta sig samstöðu einn daginn en snúa svona baki við flóttafólki þann næsta,“ sagði hann að lokum.