Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 25,1 prósent fylgi í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Hann hefur ekki mælst með meira fylgi í skoðanakönnunum Gallup frá því í október 2018 og fylgið nú er nánast það sem flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum í síðustu kosningum, þegar 25,3 prósent atkvæða féllu honum í skaut.
Samfylkingin tapar fylgi milli mánaða og mælist nú með 13,8 prósent stuðning. Sama hlutfall aðspurðra myndi kjósa Vinstri græn ef kosið yrði í dag og sá flokkur bætir við sig fylgi aðra könnunina í röð.
Píratar mælast með 10,4 prósent fylgi og Viðreisn með tíu prósent, sem er mjög svipað og fyrir rúmum mánuði. Miðflokkurinn fer niður fyrir tveggja stafa tölu í fylgi í fyrsta sinn frá því í apríl í fyrra, en fylgi hans mælist 9,9 prósent.
Hvorki Flokkur fólksins, sem mælist með 4,4 prósent fylgi, né Sósíalistaflokkurinn, með fjögur prósent fylgi, eru líklegir til að ná inn manni á þing eins og staðan er í dag.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 61 prósent og hefur ekki mælst meiri síðan í febrúar 2018.
Frá þjóðarpúlsinum er greint á vef RÚV.
Sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna er 47,3 prósent sem er töluvert undir kjörfylgi þeirra, enda mælast þeir allir þrír með minna fylgi en þeir fengu haustið 2017.
Samfylking, Píratar og Viðreisn mælast samanlagt með 34,2 prósent fylgi sem er 6,2 prósentustigum meira fylgi en flokkarnir þrír fengu í síðustu kosningum.
Bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins mælast með minna fylgi í dag en þeir fengu í kosningunum 2017.
Í frétt RÚV um könnunina segir að tæplega ellefu prósent aðspurðra hafi sagst ætla að skila auðu eða ekki kjósa og rúmlega tólf prósent tóku ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp.
Þjóðarpúls Gallup var gerður dagana 30. mars til 3. maí 2020. Heildarúrtaksstærð var 11.028 manns og 55,7 prósent tóku þátt. Vikmörk við fylgi flokka eru 0,1-1,2 prósentustig. Einstaklingar í úrtakinu voru handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup.