Afkoma Arion banka var neikvæð um tæplega 2,2 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020. Á sama tíma í fyrra skilaði bankinn rúmlega eins milljarðs króna hagnaði. Arðsemi eigin fjár var neikvæð um 4,6 prósent á fyrsta ársfjórðungi í ár en hafði verið jákvæð um 2,1 prósent á sama tíma í fyrra.
Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri Arion banka sem birt var í dag.
Þar segir að einkum þrír þættir hafi orsakað neikvæða afkomu á ársfjórðungnum; hreinar fjármunatekjur voru neikvæðar um tvo milljarða króna, einkum vegna gangvirðisbreytinga hlutabréfa vegna óhagstæðrar þróunar á mörkuðum, hrein virðisbreyting var neikvæð um tæplega 2,9 milljarða króna, aðallega vegna svartsýnni forsendna í líkönum bankans, einkum ef horft er til væntrar þróunar atvinnuleysis og tilfærslu viðskiptavina í ferðamannatengdri starfsemi í þrep 2, og aflögð starfsemi, sem var neikvæð um 889 milljónir króna vegna taprekstrar Valitor og matsbreytinga í Sólbjargi og Stakksbergi, en öll dótturfélögin eru flokkuð sem eignir til sölu.
Heildareignir bankans námu 1.188 milljörðum króna í lok mars 2020, samanborið við 1.082 milljarða króna í árslok 2019. Í tilkynningu til Kauphallar segir að lausafé bankans hafi aukist þar sem ekki varð af fyrirhugaðri tíu milljarða króna arðgreiðslu, bankinn gaf út skuldabréf undir viðbótar eiginfjárþætt í febrúar og innlán jukust. Lán til viðskiptavina hækkuðu lítillega frá áramótum, aðallega húsnæðislán, og innlán jukust um 9,4 prósent frá áramótum. Heildar eigið fé í lok mars nam 184 milljörðum króna, samanborið við 190 milljarða króna í árslok 2019 en lækkunin er einkum tilkomin vegna áframhaldandi kaupa á eigin bréfum bankans á fyrsta ársfjórðungi 2020.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir afkomuna markast mjög af COVID-19 heimsfaraldrinum. „Afkoman á fjórðungnum er neikvæð um rúmlega tvo milljarða króna einkum vegna þátta sem tengjast COVID-19 svo sem þróunar verðbréfamarkaða og efnahagslífsins almennt. Markaðsvirði hlutabréfaeignar bankans lækkaði um rúma tvo milljarða króna, niðurfærslur lána námu um þremur milljörðum, eða um 0,38 prósent af lánasafni bankans, og neikvæð áhrif félaga til sölu námu um einum milljarði króna. Niðurfærslur lána eru að mestu tilkomnar vegna væntinga um erfiðleika í efnahagslífinu og þar með auknum líkum á vanskilum. Lánasafn bankans er sem fyrr vel dreift á milli lána til einstaklinga og fyrirtækja, en um 91 prósent af útlánum bankans eru tryggð með veðum, þar af 70 prósent með veðum í fasteignum. Kjarnastarfsemi bankans þróast með nokkuð jákvæðum hætti á ársfjórðungnum borið saman við fyrsta ársfjórðung 2019 þrátt fyrir krefjandi aðstæður. Til að mynda eykst vaxtamunur bankans, tekjur af kjarnastarfsemi aukast um 9 prósent og rekstrarkostnaður dregst saman um 10 prósent. Áhersla á grunnstoðir í rekstri bankans heldur áfram og fjárhagsleg markmið hafa ekki breyst þó mögulega sé lengra í að þau náist.“