Alls flugu um 1.700 manns með Icelandair í aprílmánuði 2020. Í saman mánuði árið áður voru farþegarnir 318 þúsund talsins. Það þýðir að 99 prósent samdráttur var á milli ára.
Þetta kemur fram í nýjum flutningstölum sem Icelandair birti í dag.
Þar kemur líka fram að gríðarlegur samdráttur var í innanlandsflugi. „Fjöldi farþega hjá Air Iceland Connect var rúmlega 1.970 í aprílmánuði og fækkaði um 91 prósent á milli ára. Framboð minnkaði um 87% og var sætanýting 46,2 prósent samanborið við 69 prósent í apríl 2019. Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins drógust saman um 75 prósent í marsmánuði.
Fraktflutningar drógust hins vegar minna saman, eða um 37 prósent. „Á helstu flutningaleiðum hefur allt framboð verið að fullu nýtt og samdrætti í farþegaflugi verið mætt með auka ferðum af fraktvélum félagsins til Evrópu og Bandaríkjanna. Þannig hefur félagið náð að tryggja útflutning og verðmæti sjávarafurða og annarra útflutningsvara og flutt inn nauðsynjavörur til Íslands.“
Og það er fyrirliggjandi að Icelandair var í fullri starfsemi þorra þeirra mánaða sem um ræðir. Helstu markaðir fóru ekki að lokast fyrr en eftir að Bandaríkin greindu frá sínu ferðabanni 12. mars. Evrópa fylgdi svo í kjölfarið. Markaðsvirði Icelandair fór undir 30 milljarða króna í fyrsta sinn í átta ár snemma í mars. Það er nú um níu milljarðar króna.
Eigið fé Icelandair Group var 27,2 milljarðar króna í lok mars, eða 191,2 milljónir dala. Lausafjárstaðan nam 40 milljörðum króna, eða 281 milljón dala, í lok mars og er því enn yfir 29 milljarðar króna, 200 milljón dala, viðmiðinu sem Icelandair vinnur eftir að fara ekki undir. Í lok árs 2019 átti Icelandair um 302 milljónir dala í laust fé.
Icelandair sagði upp 2.140 manns í síðustu viku til viðbótar við þá 230 sem félagið rak í lok mars. Í síðustu viku tilkynntu stjórnvöld um að þau myndu greiða stóran hluta launa starfsfólks fyrirtækja eins og Icelandair í uppsagnarfresti og að þau myndu skoða að lána félaginu eða ábyrgjast lán til þess ef það tækist að endurskipuleggja sig fjárhagslega. Sú endurskipulagning felur í sér að biðla til kröfuhafa að breyta kröfum í hlutafé og að auka hlutafé félagsins um 30 þúsund milljón hluti, sem myndi þynna núverandi hluthafa að óbreyttu niður í sameiginlega 15,3 prósent eign. Vonir standa til að Icelandair geti safnað 29 milljörðum króna í nýtt hlutafé með þessum hætti.