Íslandsbanki, sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, tapaði 1,4 milljarði króna á fyrsta ársfjórðungi 2020. Á sama tíma í fyrra hagnaðist bankinn um 2,6 milljarða króna og því er um fjögurra milljarða króna viðsnúning að ræða milli ára.
Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri bankans sem birt var í dag.
Þar segir að virðisbreytingar útlána til viðskiptavina bankans hafi verið neikvæðar um tæplega 3,5 milljarða króna og útskýrir það tapið að mestu. Hún var 907 milljónir króna á sama tíma í fyrra og hækkaði því um 2,6 milljarða króna milli ára. Arðsemi eigin fjár hjá bankanum var neikvæð um þrjú prósent.
Virðisrýrnunin á útlánum bankans tengist að uppistöðu lánum sem hann hefur veitt til ferðaþjónustufyrirtækja.
Tap á veltubók verðbréfa og niðurfærslna eigna í fjárfestingarbók var 1,7 milljarðar króna.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að rekstrarniðurstaðan sé lituð af neikvæðri virðisrýrnun, tapi á veltubók verðbréfa og niðurfærslna eigna í fjárfestingarbók. Arðsemi eigin fjár sé því undir markmiði sem skýrist af aðstæðum í kjölfar COVID-19 faraldursins sem eigi sér enga hliðstæðu. „Íslandsbanki hefur með hlutverki sínu að vera hreyfiafl til góðra verka skuldbundið sig til að vinna náið með viðskiptavinum og styðja við þá í þeim áskorunum sem alheimsfaraldur veldur. Nú þegar hafa aðgerðir eins og tímabundin frestun afborgana og vaxta af lánum verið kynntar. Ríkisstjórnin hefur einnig kynnt fjölmargar aðgerðir sem vinna gegn atvinnuleysi og tímabundnum tekjumissi og munu stuðla að viðspyrnu hagkerfisins þegar faraldurinn gengur niður.“
Rekstrarkostnaður Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi lækkaði um 8,4 prósent á milli ára og vaxtatekjur jukust um 8,1 prósent. Ný útlán námu 57 milljörðum króna og jukust um 4,8 prósent frá áramótum.
Eigið fé Íslandsbanka er 179,5 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 22,3 prósent. Eignir bankans er 1.199 milljarðar króna og í tilkynningu vegna uppgjörsins kemur fram að endurfjármögnunarþörf bankans í erlendri mynt á þessu ári sé nær engin.
Kostnaðarhlutfall samstæðunnar hækkaði úr 59,6 í 62,9 prósent milli ára.