Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hefur aldrei náð því að vera í samræma við lög sem samþykkt voru árið 2010 um kynjakvóta. Þau tóku gildi í september 2013. Samkvæmt lögunum ber fyrirtækjum með 50 eða fleiri starfsmenn að tryggja að hlutfall hvors kyns í stjórnum sé ekki undir 40 prósentum. Árið 2007 hafði það hlutfall verið 12,7 prósent.
Í greinargerð með frumvarpinu, sem þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra lagði fram, sagði að markmið þess værið að stuðla að jafnari hlutföllum kvenna og karla í áhrifastöðum í hlutafélögum og einkahlutafélögum með auknu gagnsæi og greiðari aðgangi að upplýsingum“.
Í árslok 2017 var það 32,6 prósent. Ári síðar var það orðið 33,6 prósent og um síðustu áramót var að 34,7 prósent, samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Rúmum sex árum eftir að lögin um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja tóku gildi hafði markmið laganna aldrei náðst.
Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með færri en 50 launþega er enn lægra, eða 26,1 prósent, og hækkaði um 0,2 prósentustig frá fyrra ári.
Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra hækkaði lítillega á milli ára og er nú 23 prósent. Hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var 24,3 prósent í lok árs 2019.
Karlar stýra þorra peninga á Íslandi
Kjarninn hefur framkvæmt úttekt á því hvers kyns þeir sem stýra fjármagni á Íslandi eru árlega frá 2014. Sú síðasta var birt í byrjun mars síðastliðins og var sú sjöunda sem framkvæmd hefur verið.
Niðurstaðan var sú að 83 þeirra eru karlar en þrettán eru konur. Konum fjölgaði um þrjár á milli ára en körlum um fjóra, vegna ýmissa breytinga sem orðið höfðu á eftirlitsskyldum aðilum á árinu. Hlutfall kvenna á meðal helstu stjórnenda fjármagns á Íslandi fór með því úr 11,1 prósent í 13,5 prósent milli áranna 2019 og 2020.
Þessi hópur sem fellur undir úttektarskilyrðin stýrir samtals þúsundum milljarða króna og velur í hvaða fjárfestingar þeir peningar rata hverju sinni.
Frá því að Kjarninn gerði úttekt sína fyrst hefur konunum sem hún nær til fjölgað um helming, farið úr sex í tólf. Körlunum hefur hins vegar líka fjölgað, alls um tvo, og eru nú líkt og áður sagði 84. Og hlutfallslega bilið milli þeirra ekki lækkað sem neinu nemur.
Ef 16 af stærstu einkafjárfestum landsins eru einnig taldir með þá breytist myndin aðeins. Körlunum fjölgaði í 100 en konurnar voru 16. Hlutfall kvenna fer því upp í 16 prósent.
Hægt er að lesa úttekt Kjarnans hér til hliðar.