Mynd: 123rf.com

Það dropar á glerþakið milli kvenna og peninga en fáar sprungur myndast

Sjöunda árið í röð framkvæmdi Kjarninn úttekt á því hver kynjahlutföll séu á meðal þeirra sem stýra peningum á Íslandi. Þrátt fyrir miklar hræringar, þar sem meðal annars var skipt um forstjóra hjá átta skráðum félögum, er niðurstaðan sú sama og áður: Karlar halda þéttingsfast um veskið í íslensku efnahagslífi og þar með um völdin sem því fylgja.

Í sept­em­ber 2013 tóku að fullu gildi lög um kynja­kvóta í stjórnum fyr­ir­tækja á Íslandi. Upp­haf­lega voru lögin sam­þykkt 2010. Frum­varpið var þá sam­þykkt með atkvæðum 32 þing­manna úr öllum flokkum sem sæti áttu á þingi nema Sjálf­stæð­is­flokki. Ell­efu þing­menn greiddu ekki atkvæði.

Sam­kvæmt lög­unum ber fyr­ir­tækjum með 50 eða fleiri starfs­menn að tryggja að hlut­fall hvors kyns í stjórnum sé ekki undir 40 pró­sent­um.

Það var ekki að ástæðu­lausu að ráð­ist var í slíka laga­setn­ingu. Árið 2007 var hlut­fall kvenna í stjórnum slíkra fyr­ir­tækja 12,7 pró­sent.

Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu, sem þáver­andi efna­hags- og við­skipta­ráð­herra lagði fram, sagði að mark­mið þess værið að stuðla að jafn­ari hlut­föllum kvenna og karla í áhrifa­stöðum í hluta­fé­lögum og einka­hluta­fé­lögum með auknu gagn­sæi og greið­ari aðgangi að upp­lýs­ing­um“.

 Það mark­mið hefur aldrei náðst.

Sjö úttektir en litlar breyt­ingar

Fyrst ber að nefna að hlut­fall kvenna í stjórnum stórra fyr­ir­tækja á Íslandi hefur aldrei náð því að verða 40 pró­sent. Í árs­lok 2017 var það 32,6 pró­sent. Síðla árs 2018 birti Félag kvenna í atvinnu­rekstri nið­ur­stöðu grein­ingar sem Deloitte vann fyrir það sem sýndi að hlut­fall kvenna í fram­kvæmda­stjórnum 100 stærstu fyr­ir­tækja lands­ins var ein­ungis 26 pró­sent. Konur voru tíu pró­sent for­stjóra og 19 pró­sent stjórn­ar­for­manna. 

Sam­an­dregið þá benda allar tölur til þess að lög­gjöfin um kynja­kvóta í stjórnum hafi hvorki skilað því að 40 pró­sent stjórn­ar­manna í stórum fyr­ir­tækjum séu konur né að það skili sér í því að mun fleiri konur séu ráðnar til að stýra fjár­magni á Ísland­i. 

Litlar breyt­ingar á sjö árum

Kjarn­inn hefur fram­kvæmt úttekt á því hvers kyns þeir sem stýra fjár­magni á Íslandi eru árlega frá 2014. Úttektin nú er því sú sjö­unda sem fram­kvæmd hefur ver­ið.

Í ár nær hún til 96 æðstu stjórn­enda við­skipta­banka, spari­sjóða, líf­eyr­is­sjóða, skráðra félaga, óskráðra trygg­inga­fé­laga, lána­fyr­ir­tækja, verð­bréfa­fyr­ir­tækja og -miðl­ana, fram­taks­sjóða, orku­fyr­ir­tækja, raf­eyr­is­fyr­ir­tækja, greiðslu­stofn­ana, Kaup­hallar og lána­sjóða. 

Nið­ur­staðan nú er sú að 83 þeirra eru karlar en þrettán eru kon­ur. Konum fjölgar um þrjár á milli ára en körlum um fjóra, vegna ýmissa breyt­inga sem orðið hafa á eft­ir­lits­skyldum aðilum á árinu. Hlut­fall kvenna á meðal helstu stjórn­enda fjár­magns á Íslandi fer með því úr 11,1 pró­sent í 13,5 pró­sent milli áranna 2019 og 2020. 

Þessi hópur sem fellur undir úttekt­ar­skil­yrðin stýrir sam­tals þús­undum millj­arða króna og velur í hvaða fjár­fest­ingar þeir pen­ingar rata hverju sinni.

Frá því að Kjarn­inn gerði úttekt sína fyrst hefur kon­unum sem hún nær til fjölgað um helm­ing, farið úr sex í tólf. Körlunum hefur hins vegar líka fjölg­að, alls um tvo, og eru nú líkt og áður sagði 84. Og hlut­falls­lega bilið milli þeirra ekki lækkað sem neinu nem­ur.

Ef 16 af stærstu einka­fjár­festum lands­ins eru einnig taldir með þá breyt­ist myndin aðeins. Körlunum fjölgar í 100 en kon­urnar eru 16. Hlut­fall kvenna fer því upp í 16 pró­sent. 

Því er ljóst að þótt dropi á gler­þak­ið, þá virð­ist langt í að það mynd­ist sprungur í því.

Miklar svipt­ingar á árinu 2019

Árið 2019 var þrátt fyrir allt ár mik­illa breyt­inga. Fyrst ber að nefna að fram­kvæmda­stjóri Líf­eyr­is­sjóðs starfs­manna rík­is­ins (LS­R), stærsta líf­eyr­is­sjóðs lands­ins, ákvað að hætta störf­um. Það vakti mikla athygli þegar Harpa Jóns­dótt­ir, þáver­andi fram­kvæmda­stjóri fjár­mála­stöð­ug­leika­sviðs Seðla­banka Íslands, var ráðin í starf­ið. Þar með varð hún fyrsta konan til að stýra einum af „fjórum stóru“ líf­eyr­is­sjóðum lands­ins, en sá hópur telur líka Líf­eyr­is­sjóð verzl­un­ar­manna, Gildi og Birta. 

Sam­kvæmt nýbirtri sam­an­tekt fjár­mála­eft­ir­lits Seðla­banka Íslands námu eignir LSR 1.019 millj­örðum króna um síð­ustu ára­mót, eignir Líf­eyr­is­sjóðs verzl­un­ar­manna 867 millj­örðum króna, Gildis 657 millj­örðum króna og Birtu 430 millj­örðum króna. Sam­an­lagt eru eignir þess­ara fjög­urra sjóða nálægt þrjú þús­und millj­örðum króna eða um 57 pró­sent af líf­eyri lands­manna. 

Harpa Jónsdóttir tók við stjórnartaumunum hjá stærsta lífeyrissjóði landsins á síðasta ári.
Mynd: Hringbraut

Það voru líka tölu­verðar breyt­ingar í banka­heim­in­um. Bæði Arion banki og Kvika skiptu um banka­stjóra. Þar voru þó ráðnir tveir karlar í stað tveggja karla. Vert er að taka fram að tvær konur stýra tveimur af fjórum stærstu bönkum lands­ins, þær Birna Ein­ars­dóttir í Íslands­banka og Lilja Björk Ein­ars­dóttir í Lands­bank­an­um. Það vekur þó athygli að kon­urnar starfa báðar í bönkum sem eru í rík­i­s­eigu.

Átta félög skiptu um for­stjóra og átta karlar tóku við

Fyrir utan Arion banka og Kviku, sem báðir eru skráðir á aðal­l­ista Kaup­hallar Íslands, þá hafa sex önnur skráð félög um for­stjóra á síð­ast­liðnu ári. Það þýðir að átta af þeim 20 félögum sem skráð eru á aðal­l­ista, eða 40 pró­sent þeirra, skiptu um ein­stak­ling í brúnn­i. 

Í öllum til­fellum var karli skipt út fyrir karl, enda stýra engar konur skráðu félagi á Íslandi. Þannig hefur það raunar verið frá því að Sig­rúnu Rögnu Ólafs­dóttur var sagt upp hjá VÍS í ágúst 2016.

Á Íslandi eru fjórir spari­sjóðir enn starf­andi. Þremur þeirra er stýrt af körlum en einum af konu. Það er Spari­sjóður Suð­ur­-­Þing­ey­inga sem er stýrt af spari­sjóðs­stjór­anum Gerði Sig­tryggs­dótt­ur.

Þá lúta alls fjögur skil­greind lána­fyr­ir­tæki eft­ir­liti Fjár­mála­eft­ir­lits­ins. Einu þeirra, Lykli, er styrt af konu, Lilju Dóru Hall­dórs­dótt­ur, en að öðru leyti halda karl­menn um þræð­ina innan þeirra. Um að ræða stór fyr­ir­tæki og stofn­an­ir. Hin fjögur eru Borg­un, Lána­sjóður sveit­ar­fé­laga og Byggða­stofn­un.

Fram­tíðin lána­sjóður er skráður eft­ir­lit­skyldur lán­veit­andi. Í byrjun mars 2018 var kona, Vala Hall­dórs­dótt­ir, ráð­inn sem fram­kvæmda­stjóri hans í stað karls. Þegar Fram­tíðin færð­ist yfir til Kviku frá GAMMA, þegar bank­inn keypti fjár­mála­fyr­ir­tæk­ið, tók Rósa Krist­ins­dóttir við af Val­gerði.

konur og peningar
Infogram

Þá eru tvö hagn­að­ar­drif­inn leigu­fé­lög í land­inu, Almenna leigu­fé­lagið og Heima­vell­ir. Öðru er stýrt af konu, Maríu Björk Ein­ars­dótt­ur, en hinu karli.

Kar­lægni alls­ráð­andi hjá verð­bréfa­fyr­ir­tækj­unum

Að venju er kynja­staðan verst hjá verð­bréfa­fyr­ir­tækjum og rekstr­ar­fé­lögum verð­bréfa­sjóða, þeirra sem hagn­ast af því að flytja pen­inga frá þeim sem eiga þá og í þau við­skipta­tæki­færi sem skapast, og þiggja þókn­ana­tekjur fyr­ir. Stærstu við­skipta­vinir flestra þeirra eru íslenskir líf­eyr­is­sjóð­ir.



Sam­kvæmt yfir­lits­lista Fjár­mála­eft­ir­lits­ins eru níu verð­bréfa­fyr­ir­tæki starf­andi á Íslandi. Þau eru ALM Verð­bréf, Arct­ica Fin­ance, Arev verð­bréfa­fyr­ir­tæki, Centra Fyr­ir­tækja­ráð­gjöf, Fossar mark­að­ir, Íslensk verð­bréf, Íslenskir fjár­fest­ar, Jöklar-Ver­bréf og T Plús. Öllum er stýrt af körl­um. Og þorri starfs­manna þeirra allra eru líka karl­ar.

Rekstr­ar­fé­lög verð­bréfa­sjóða eru líka níu tals­ins. Þau heita Akta sjóð­ir, GAMMA, Íslands­sjóð­ir, ÍV sjóð­ir, Júpíter rekstr­ar­fé­lag, Lands­bréf, Rekstr­ar­fé­lag Virð­ing­ar, Stefnir og Summa rekstr­ar­fé­lag. Þrjú þeirra skiptu um æðsta yfir­mann á síð­asta ári. Í öll skiptin var karl ráð­inn í stöð­una. Öllum rekstr­ar­fé­lögum verð­bréfa­sjóða er því áfram sem áður stýrt af körl­um.

Hjá inn­heimtu­að­ilum (Aur app, Fjár­vak­ur, Inkasso, Moment­um, Motus og Prem­i­um) er staðan þannig að stjórn­end­urnir eru Þrír karlar og tvær kon­ur. Önnur þeirra, Eva Sóley Guð­björns­dótt­ir, er fram­kvæmda­stjóri Icelandair en Fjár­vakur var fært úr því að vera sjálf­stæð ein­ing og undir sviðið í fyrra.

Einn skipti­mark­aður með sýnd­arfé er eft­ir­lits­skyldur á Íslandi, fyr­ir­tækið Skipti­mynt ehf. Því er stýrt af karli. Þá eru tvær skráðar greiðslu­stofn­an­ir, Korta­þjón­ustan og Valitor. Báðum var stýrt af körlum þar til nýverið þegar for­stjóri Valitor sagði upp. Her­dís Fjel­sted, stjórn­ar­for­maður Valitor, tók við stöð­una tíma­bundið og telst Valitor því vera stýrt af konu, þrátt fyrir að að ráðn­ing Her­dísar sé yfir­lýst tíma­bund­in.

Herdís Fjelsted er starfandi forstjóri Valitor. Hún er líka stjórnarformaður félagsins og situr í stjórn Arion banka, sem á Valitor.
Mynd: Arion banki

Her­dís stýrði áður Fram­taks­sjóði Íslands, sem var umsvifa­mik­ill umbreyt­ing­ar­fjár­festir á Íslandi á eft­ir­hrunsár­un­um, og þá í eigu líf­eyr­is­sjóða og um tíma rík­is­banka. Þótt hlut­verki Fram­taks­sjóðs­ins sé að mestu lokið þá er hann enn starf­andi, lýtur eft­ir­lits­skyldu og er stýrt af karli.

Þá eru átta orku­fyr­ir­tæki í land­inu. Lengi vel var þeim öllum stýrt af körlum en 2018 var Berg­lind Rán Ólafs­dóttir ráðin fram­kvæmda­stjóri Orku Nátt­úr­unnar í kjöl­far mik­illa átaka innan þess fyr­ir­tækis vegna meintrar kyn­ferð­is­legrar áreitni.

Stjórn­mál og stjórn­sýsla

Þegar horft er víðar á áhrifa­stöður í sam­fé­lag­inu, þar sem pen­ingum er auð­vitað stýrt, en þó með öðrum hætti en í við­skipta­líf­inu, hallar víða enn á kon­ur. Í rík­is­stjórn er kynja­hlut­fallið til að mynda enn körlum í hag. Þar sitja sex karlar og fimm kon­ur. For­sæt­is­ráð­herra er hins vegar konan Katrín Jak­obs­dótt­ir. Það er í annað sinn í lýð­veld­is­sög­unni sem kona situr í því emb­ætti. Sú fyrsta var Jóhanna Sig­urð­ar­dóttir sem var for­sæt­is­ráð­herra 2009-2013.

Þá er seðla­banka­stjóri karl en af þremur vara­seðla­banka­stjórum eru tvær kon­ur, Rann­veig Sig­urð­ar­dóttir og Unnur Gunn­ars­dótt­ir.

Rannveig Sigurðardóttir og Unnur Gunnarsdóttir eru varaseðlabankastjórar annars vegar peningastefnu og hins vegar fjármálaeftirlits.
Mynd: Samsett

Á Alþingi eru 24 kjörnar kon­ur. Þær dreifast ójafnt á flokka. Mið­flokk­ur­inn, nú stærsti stjórn­ar­and­stöðu­flokkur lands­ins, sam­anstendur til að mynda af átta körlum og einni konu. Hjá Sjálf­stæð­is­flokknum eru tólf karlar og fjórar kon­ur.Hjá Pírötum eru karl­arnir fjórir en kon­urnar tvær og hjá Sam­fylk­ingu eru karl­arnir fjórir en kon­urnar þrjár. Kynja­hlut­fallið í tveimur minnstu þing­flokk­un­um, hjá Við­reisn og Flokki fólks­ins sem sam­an­lagt eru með sex þing­menn, eru jafnt.

Ein­ungis tveir þing­flokkar eru með fleiri konur inn­an­borðs en karla: ann­ars vegar Vinstri græn, þar sem kon­urnar eru sex og karl­arnir fimm, og hins vegar Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn, þar sem kon­urnar eru fimm en karl­arnir þrír. Allir karl­arnir þrír hjá Fram­sókn­ar­flokknum eru þó í mjög áhrifa­miklu stöð­um: tveir eru ráð­herrar og sá þriðji for­maður fjár­laga­nefnd­ar, áhrifa­mestu þing­nefndar Alþing­is.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar