Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun hvort hann væri að hóta þeim stéttum sem nú standa í kjarabaráttu að ef þær féllu ekki frá kröfum sínum myndi hann segja upp lífskjarasamningunum. „Ætla stjórnvöld ekki að standa við lífskjarasamningana í þeirri fjármálaáætlun sem von er á fljótlega?“ spurði hún.
Hún vísaði í orð ráðherra í kvöldfréttum á RÚV í vikunni þar sem hann sagði að forsendurnar fyrir lífskjarasamningnum stæðu óskaplega tæpt. Hann sagði að það væri ákveðið kraftaverk að samningarnir héldu enn og að enn væri tekið mið af þeim við gerð nýrra kjarasamninga.
Bjarni kom í pontu og spurði hvar Halldóra hefði verið og hvort menn áttuðu sig ekki á því hvað væri að gerast á Íslandi. „Við erum að tapa á þessu ári, umfram það sem við héldum að yrði halli ársins, 250 milljörðum eða álíka, tvöfaldri fjárhæð sem við ætluðum til ársins 2033 að setja í höfuðborgarpakka. Þar þótti mönnum nóg að gert,“ sagði hann.
Erum í varnarbaráttu
Bjarni sagðist ekki vita hvað hann gæti gert fólki til hjálpar sem skildi ekki hvað hefði breyst. „Það sem ég sagði um lífskjarasamningana, sem hæstvirtur þingmaður heldur að ríkisstjórnin hafi skrifað undir og sé aðili að en er ekki, er að lífskjarasamningarnir voru gerðir með stuðningi stjórnvalda milli aðila vinnumarkaðarins. Það er ekki á verksviði stjórnvalda að segja þeim upp eins og hæstvirtur þingmaður spurði mig um.“
Þessir samningar hefðu verið gerðir á þeim forsendum sem fólk hefði haft á þeim tíma um framvindu efnahagsmála. „Það sem ég hef sagt um þetta mál er að við höfum, þrátt fyrir að þær forsendur hafi breyst í grundvallaratriðum fram á þennan dag, enn verið að gera samninga sem taka mið af þessu. Samningar sem ekki hafa tekist hafa haft það merki á sér, sem sagt viðræðurnar um þá samninga, að þar er farið fram á meira en lífskjarasamningarnir rúmuðu. Það er óraunhæft. Þeir sem ekki sjá það eru ekki að fylgjast með. Þeir sem ekki sjá að ekki er svigrúm til að ganga lengra en lífskjarasamningarnir í nýjum kjarasamningum eru einfaldlega ekki raunveruleikatengdir,“ sagði Bjarni.
Hann bætti því við að við værum í varnarbaráttu. „Við erum að reyna að verja það sem var gert í lífskjarasamningunum og það stendur tæpt. Það stendur tæpt þegar 50.000 manns eru komin á atvinnuleysisskrá í millitíðinni.“
Snýst um forgangsröðun
Halldóra sagði í framhaldinu að hún áttaði sig á ástandinu, þetta snerist einfaldlega um forgangsröðun. „Þetta snýst bara um hugmyndafræði, þetta snýst um hvernig þú forgangsraðar verkefnum sem á að setja fjármagn í. Og það á augljóslega ekki að forgangsraða því að greiða hér mannsæmandi laun fyrir þær stéttir sem við höfum séð undanfarið að samfélagið bókstaflega hrynur án þeirra. Það hrynur án þeirra.“
Hún sagðist enn fremur vera að benda á að svigrúmið hefði verið gríðarlegt. „Jú, þetta er varnarbarátta en við erum að reyna að verja grunnstoðir samfélagsins og það eru þessir hópar sem sinna þessum störfum. Grunnstoðir samfélagsins, við viljum verja þær. Og snýr að því að greiða hér almennileg laun,“ sagði hún.
Elur á óánægju, streitu og veikindum að meta fólk ekki að verðleikum
Halldóra spurði því hvernig stæði á því að svigrúmið væri endalaust þegar kæmi að björgunaraðgerðum fyrir fyrirtæki í þeirri varnarbaráttu en þegar kæmi að varnarbaráttu fyrir grunnstoðir samfélagsins og fyrir fólk sem ynni ómissandi þjónustu í samfélaginu þá væri svigrúmið ekki neitt.
„Þetta elur á óánægju, streitu og veikindum að meta fólk ekki að verðleikum. Þetta grefur undan grunnstoðum samfélagsins og ég spyr hæstvirtan fjármálaráðherra: Hvað kostar það inn í framtíðina?“ spurði hún.
„Þetta er bara algjör þvæla“
Bjarni svaraði öðru sinni og spurði á móti í hvað Halldóra héldi að þessir 250, kannski 300 milljarðar í halla á ríkissjóði á þessu ári, færu í nema að borga opinberum starfsmönnum laun, að styðja við almannatryggingakerfið, félagslegu kerfin og standa með húsaleigubótum.
Hann hvatti Halldóru til að kynna sér það hvernig útgjöld ríkisins skiptust. „Við erum einmitt að forgangsraða í það að verja opinbera þjónustu, samneysluna, á þessum gríðarlega erfiðu tímum og við tökum lán fyrir þessu öllu saman. Við tökum lán fyrir því að verja opinberu þjónustuna. Þá kemur hv. þingmaður og segir að vegna þess að við viljum ekki gera kjarasamninga sem eru umfram forsendur lífskjarasamninga við einhverjar tilteknar stéttir þá séum við ekki að forgangsraða rétt. Þetta er bara algjör þvæla,“ sagði ráðherrann.