Kynnisferðir og Eldey TLH, félag að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóða en í stýringu hjá Íslandssjóðum, hafa undirritað samkomulag um sameiningu. Við hana verður til eitt stærsta félag landsins sem sinnir afþreyingartengdri ferðaþjónustu.
Á heimasíðu Arctica Finance, sem var ráðgjafi Kynnisferða í sameiningarviðræðunum, kemur fram að unnið sé að frekari útfærslu samrunans, þar með talið áreiðanleikakönnun og tilkynningu til Samkeppniseftirlitsins.
Eldey TLH verður slitið í kjölfarið og hluthafar þess fá greitt fyrir með hlutafé í Kynnisferðum.
Kynnisferðir var stofnað 1968 og er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins en sinnir til viðbótar annarri starfsemi, til dæmis undirverktöku fyrir Strætó. Stærsti hluti rekstrarins hefur verið undir merkjum Reykjavík Excursions sem boðið hefur upp á fjölbreyttar dagsferðir auk þess að bjóða upp á ferðir yfir sumartímann og áætlunarakstur til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Bláa lóninu, en fyrirtækið hefur líka starfrækt bílaleigu.
Uppsagnargreiðslur úr ríkissjóði vörðu Kynnisferðir falli
Kynnisferðir nýttu sér hlutabótaleiðina svokölluðu þegar hún kom til framkvæmda í mars, en um 320 manns störfuðu hjá fyrirtækinu áður en að kórónuveirufaraldurinn skall á og lamaði meðal annars alla ferðaþjónustu á Íslandi. Eftir að stjórnvöld kynntu að ríkissjóður muni greiða hluta launakostnaðar starfsmanna hjá fyrirtækjum sem höfðu upplifað tiltekið tekjufall á uppsagnarfresti í lok síðasta mánaðar sagði fyrirtækið svo 150 manns upp störfum. Um var að ræða 40 prósent starfsmanna.
Í samtali við RÚV í aðdraganda uppsagnanna sagði Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, að það sæi ekki fram á nein viðskipti næstu mánuði. „Við sáum fram á það að það hefði kostað okkur gríðarlega fjármuni að fara í uppsagnir. Þannig að þetta hjálpar okkur gríðarlega við það og ver eiginlega bara félagið falli.“
Stærsti eigandi Kynnisferða í dag er félagið Alfa hf. Það er að uppistöðu í endanlegri eigu Einars Sveinssonar, hjónanna Benedikts Sveinssonar og Guðríðar Jónsdóttur og hluti barna þeirra. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er sonur Benedikts og Guðríðar en hann á ekki hlut í félaginu.
Alfa átti 65 prósent í Kynnisferðum fyrir samrunann á móti framtakssjóðnum SÍA II í rekstri Stefnis hf. Hluthafar SÍA II samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og fagfjárfestum. SÍA II keypti 35 prósent hlutinn í Kynnisferðum snemma árs 2015. Kaupverðið var ekki gefið upp en hagnaður Alfa á því ári jókst um nálægt 1,1 milljarð króna milli ára og var tæplega 1,5 milljarðar króna. Stjórnarformaður Kynnisferða er Jón Benediktsson.