Yfir tíu milljarða króna viðsnúningur var milli ára á afkomu Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi. Bankinn, sem er að nær öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, tapaði 3,6 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 en skilaði 6,8 milljarða króna hagnaði á sama tímabili í fyrra.
Arðsemi eigi fjár hans var neikvæð upp á 5,9 prósent en var jákvæð um 11,2 prósent á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri Landsbankans sem birt var í dag.
Virðisrýrnun útlána bankans nam 5,2 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins, sem jafngildir um 0,4 prósent af lánasafni bankans.
Alls eru útlán bankans til ferðaþjónustu, sem hefur orðið verst allra geira úti vegna áhrifa af COVID-19 faraldrinum, 95,7 milljarðar króna sem nemur um 8,1 prósent af heildarútlánum bankans. Þau hafa lækkað um rúman hálfan milljarð króna frá árslokum 2019.
Útlán til einstaklinga og fyrirtækja jukust um 4,4 prósent frá áramótum, eða um rúma 50 milljarða króna en þar af voru um 33 milljarðar króna vegna gengisbreytinga. Innlán hjá Landsbankanum jukust um 47 milljarða króna frá áramótum, sem er 6,7 prósent aukning.
Eigið fé Landsbankans var 244,1 milljarður króna þann 31. mars síðastliðinn og eiginfjárhlutfallið var 24,8 prósent.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir að uppgjör bankans endurspegli greinilega þau áhrif sem COVID-19 hafi haft á efnahagslíf landsins. „Virðisrýrnun útlána nam 5,2 milljörðum króna sem má rekja til þeirra aðstæðna sem hafa skapast í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Mat á virðirýrnun er í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal og tilmæli frá Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni og Seðlabanka Íslands. Þessi varúðarfærsla, ásamt áhrifum af óróa á hlutabréfamörkuðum, á stærstan þátt í því að bankinn bókfærir tap á fyrsta ársfjórðungi 2020 upp á um 3,6 milljarða króna, samanborið við hagnað upp á 6,8 milljarða króna vegna fyrsta ársfjórðungs 2019.“
Lilja segir að ekki sé útséð um endanleg áhrif faraldursins. Þó megi telja líklegt að minni tekjur viðskiptavina og aukin skuldsetning muni hafa neikvæð áhrif á lánshæfi þeirra sem leiðir til enn meiri virðisrýrnunar útlána.