Skeljungur, sem setti hluta af starfsmönnum sínum á hina svokölluðu hlutabótaleið þrátt fyrir að fyrirtækið hefði greitt hluthöfum sínum 600 milljón króna arðgreiðslu sex dögum áður, hefur ákveðið að endurgreiða Vinnumálastofnun kostnað vegna þeirra starfsmanna sem fengu hlutabótagreiðslur í apríl.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá forstjóra Skeljungs, Árna Pétur Jónssyni, í dag. Þar segir enn fremur að „að athuguðu máli telur Skeljungur að ekki hafi verið rétt að nýta úrræðið.“
Fleiri fyrirtæki hafa annað hvort greitt arð eða keypt eigin bréf, og þannig skilað fjármunum úr rekstri til hluthafa, en samt sem áður sóst eftir úrræðum stjórnvalda. Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Hagar hefðu keypt eigin bréf fyrir 450 milljónir króna frá því í lok febrúar og Össur nýtti hlutabótaleiðina skömmu eftir að hafa greitt eigendum sínum 1,2 milljarða í arð.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við fréttastofu RÚV í dag að það hefði að sjálfsögðu ekki verið ætlunin „að stöndug fyrirtæki væru að nýta sér þetta neyðarúrræði til að greiða niður laun sinna starfsmanna.“
Hún boðaði að leiðinni yrði breytt til að koma í veg fyrir þetta.