Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó bs. segir við Kjarnann að eftirspurn eftir strætóferðum hafi ekki aukist nema lítillega frá því að slakað var á samkomubanninu í upphafi vikunnar, en eftirspurnin hafi fallið um 65 prósent eftir að farsóttin fór að geisa í upphafi marsmánaðar. Ekki sé verjandi að aka tómum vögnum um göturnar.
Neytendasamtökin gagnrýna Strætó harðlega í færslu á vef samtakanna í dag og segir Breki Karlsson formaður þeirra í samtali við Kjarnann að kvartanir hafi borist frá neytendum vegna skertrar þjónustu, en Strætó hefur ekið um eftir laugardagsáætlun sinni undanfarnar vikur, sem þýðir að ferðatíðni er skert og sumar leiðir aka alls ekki. Þó byrjar aksturinn fyrr á morgnana en í venjulegri laugardagsáætlun.
Neytendasamtökin gagnrýna að Strætó hafi ekki svarað fyrirspurnum þeirra um málið og hver réttur neytenda sé vegna skertrar þjónustu. „Núna þegar búið er að lyfta samkomubanninu og fólk er að mæta í vinnu og fara í skóla og svoleiðis hníga engin rök að því að halda áfram að bjóða upp á skerta þjónustu. Við höfum sent fyrirspurnir á Strætó sem við höfum ekki fengið svör við,“ segir Breki.
Hann segir einnig að svo virðist sem um hagræðingaraðgerð sé að ræða hjá Strætó, sem komi ekki farsóttinni við. Allavega taka samtökin því þannig, þar til Strætó svari fyrirspurn samtakanna um stöðu neytenda.
Jóhannes segir að það sé „ekki verjandi“ að aka um um með vagnana tóma vagna og því verði áfram um sinn ekið eftir laugardagsáætlun, en þó með „fullt af aukavögnum úti“ til að tryggja að hægt sé að virða þær takmarkanir sem eru í gildi vegna sóttvarnaráðstafana, en einungis 30 manns mega vera í sama vagni þessa dagana.
Strætó horfir fram á 420 til 610 milljóna króna tekjutap vegna faraldursins
Á stjórnarfundi Strætó bs. 17. apríl greindi Jóhannes frá því að gert sé ráð fyrir því að tekjur ársins verði 420 til 610 milljónum lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það mat byggði á þeirri sviðsmynd að þjónustustig yrði komið í eðlilegt horf í síðasta lagi í ágúst.
Í fundargerðinni sagði að til stæði að færa leiðakerfið í fyrra horf á næstu vikum og skipa sérstakan vinnuhóp til þess að fara yfir hvernig það verði mögulegt.
Jóhannes segir að eftirspurnin verði að rísa nokkuð til þess að akstursáætlunin taki breytingum. Aðspurður segir hann að fáir notendur Strætó hafi kvartað til fyrirtækisins að undanförnu, kannski einn til tveir á dag, og það hafi aðallega verið ábendingar um að of margir séu í vögnunum. Ekki hafi borið á mikilli óánægju með skerta ferðatíðni.
Breki segir að slíkar kvartanir hafi borist til Neytendasamtakanna og einnig kvartanir yfir því að 30 farþega reglan hafi verið brotin.
Í dag birta Neytendasamtökin mynd sem félagsmaður tók í þéttsetnum strætisvagni, að þeirra sögn í þessari viku.
„Félagsmaðurinn taldi a.m.k. 33 farþega, en Strætó er einungis heimilt að ferðast með 30 manns. Vandinn kristallast í því að skortur er á vögnum þar sem mun færri mega ferðast með hverjum og einum þeirra en áður,“ segir í færslu Neytendasamtakanna.