Tvö ný COVID-19 smit greindust á Íslandi í gær, eitt hjá Íslenskri erfðagreiningu og eitt á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Þar með lauk þriggja daga smitlausri hrinu, en síðast greindist smit hér á landi 2. maí.
Alls voru á sjöunda hundrað sýni tekin í gær, 368 hjá Íslenskri erfðagreiningu og 252 á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.
Hvorugur þeirra einstaklinga sem greindust í gær voru í sóttkví áður en sýni úr þeim var tekið, en 729 manns eru enn í sóttkví.
Staðfest smit á Íslandi eru nú orðin 1.801 talsins frá þvi að fyrsta smitið greindist þann 28. febrúar, en virku smitin sem vitað er um eru einungis þrjátíu og sex. Er fjöldi virkra smita var mestur, 24. mars, voru þau 1.096 talsins.
Þrír eru inniliggjandi á sjúkrahúsi vegna veirunnar, samkvæmt vefsíðunni covid.is, en enginn þeirra á gjörgæslu.