Eignir íslenskra lífeyrissjóða voru metnar á 4.950 milljarða króna í lok mars síðastliðins. Þær hækkuðu um 30,7 milljarða króna milli mánaða. Sú hækkun er að öllu leyti vegna þess að erlendar eignir sjóðanna, sem voru 1.485 milljarðar króna í lok mars, jukust um 33,3 milljarða króna í mánuðinum. Þá hækkun má að minnsta kosti að hluta rekja til þess að krónan veiktist gegn helstu viðskiptagjaldmiðlum Íslands í marsmánuði. Alls drógust innlendar eignir lífeyrissjóðakerfisins saman um 2,6 milljarða króna í mars.
Þetta kemur fram í nýjum tölum um eignir íslenskra lífeyrissjóða sem Seðlabanki Íslands birti í dag.
Vert er að benda á að á annan tug milljarða króna er greitt inn í lífeyrissjóðakerfið í formi iðgjalda í hverjum mánuði. Því er tapið milli mánaða, að þeim meðtöldum, meira en greint er frá í tölum Seðlabankans. Búast má við því að inngreiðslur muni dragast umtalsvert saman í nánustu framtíð í ljósi þess að 55 þúsund manns eru nú atvinnulausir að öllu leyti eða að hluta á Íslandi. Það þýðir að launagreiðslur til þess hóps munu dragast verulega saman og samhliða því iðgjöld sem skila sér í lífeyrissjóðina.
Fóru yfir fimm þúsund milljarða í janúar
Eignir kerfisins fóru yfir fimm þúsund milljarða króna í janúar 2020, en lækkuðu um 88 milljarða króna í febrúar. Það var í fyrsta sinn síðan í desember 2018 sem að eignir kerfisins drógust saman milli mánaða. Þá lækkuðu eignirnar um 100 milljarða króna en jukust svo aftur um 145 milljarða króna í næsta mánuði á eftir. Þar var því um mjög tímabundna niðursveiflu að ræða.
Eina skiptið fyrir utan það sem eignirnar hafa lækkað meira í krónum talið en þær gerðu í febrúar 2020 var í október 2008, þegar íslenska bankakerfið hrundi. Þá töpuðu lífeyrissjóðirnir 209 milljörðum króna á einum mánuði.
Það verður þó að taka inn í dæmið að heildareignir þeirra fyrir hrunið voru 1.868 milljarðar króna og því var hlutfallslega áfallið þá mun meira en það er nú. Í febrúar 2020 lækkuðu eignir íslensku lífeyrissjóðanna um 1,7 prósent en í hrunmánuðinum 2008 lækkuðu þær um rúmlega ellefu prósent.
Í nóvember 2008 hækkuðu eignirnar svo aftur um 73 milljarða króna og hluti af tapinu náðist því til baka, aðallega með gengisfalli.