Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra eru á einu máli um að stöndug fyrirtæki sem hafi tök á því að greiða út arð til hluthafa sinna hefðu ekki átt að nýta sér hlutabótaleiðina og vilja að fyrirtæki rökstyðji ákvarðanir sínar. Þetta kom fram í máli þeirra tveggja í hádegisfréttum RÚV.
Þegar hlutabótaleiðin var kynnt af hálfu stjórnvalda voru ekki settar neinar kvaðir um að fyrirtæki sem hana nýttu mættu ekki greiða sér arð eða kaupa eigin hlutabréf, en fregnir vikunnar af arðgreiðslum og endurkaupum hafa vakið úlfúð í samfélaginu og einnig hjá leiðtogum ríkisstjórnarinnar.
„Við virðumst hafa tilvik þar sem fyrirtæki hafa ekki haft neina raunverulega þörf, þar sem að þau hafa til dæmis verið að dreifa peningum til hluthafa sinna, til þess að nýta þetta úrræði,“ sagði fjármálaráðherra við RÚV eftir ríkisstjórnarfund í morgun og bætti við að þetta þætti honum „alveg óskaplega slæmt“ og að þetta „ræki rýting í samstöðuna“ sem myndast hefði í samfélaginu eftir að heimsfaraldurinn skall á.
Haft var eftir forsætisráðherra að öllum fyrirtækjum sem hafa nýtt sér hlutabótaleiðina yrði sent bréf þar sem óskað yrði eftir rökstuðningi fyrir því að skerða starfshlutfall starfsmanna. Fjármálaráðherra sagði einnig, aðspurður, að ef í ljós kæmi að fyrirtæki hefðu nýtt sér hlutabótaleiðina án fullnægjandi skýringa væri ekki útilokað að farið yrði fram á að fyrirtækin endurgreiddu ríkinu.
Eins og Kjarninn fjallaði um þann 22. apríl hefur Vinnumálastofnun ekki upplýsingar um hvort öll þau fyrirtæki sem hafa verið starfsmenn í skertu starfshlutfalli undanfarnar hafi upplifað samdrátt í sínum rekstri eða takmarkanir vegna aðstæðna í samfélaginu.
Að því hefur ekki verið spurt, þrátt fyrir heimild sé í lögum fyrir því að óska eftir rökstuðningi frá vinnuveitendum sem lækka starfshlutfall starfsmanna sinna um það af hverju fyrirtækið hafi gripið til þess ráðs.
„Frá gildistöku laganna hefur álag vegna mjög margra umsókna í þetta úrræði verið svo mikið að ekki hefur gefist tími til að stunda mikið eftirlit,“ sagði Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar í skriflegu svari sínu við fyrirspurn Kjarnans.
Haft var eftir Unni, í hádegisfréttum RÚV í dag, að þessu eftirliti yrði sinnt eftir á, rétt eins og forsætisráðherra boðar.