Til að vinna gegn atvinnuleysi þurfa stjórnvöld að skapa samfélagslega mikilvæg störf. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Eflingar í dag. Þar er bent á að fjölda fólks vanti í störf í heilbrigðiskerfinu og umönnunarkerfunum landsins og undirbúningur fyrir sjálfbært hagkerfi þurfi rækilegan stuðning með mannaflsfrekum opinberum framkvæmdum.
„Verka og láglaunafólk hefur á undanförum árum knúið áfram hjól atvinnulífsins með vinnu sinni. Það hefur staðið skil á sköttum og gjöldum. Krafan er sú að það njóti verndar ríkisins á þessum erfiðu tímum. Stjórnvöld einfaldlega skulda vinnuaflinu sanngjarna meðferð.“
Áhættan við að veita björgunaraðgerðum gegnum stjórnir einkafyrirtækja mikil
Í færslunni segir að síðan kórónafaraldurinn lagðist yfir heimsbyggðina hafi ríkisstjórnir um allan heim gripið til björgunaraðgerða vegna meðfylgjandi efnahagskreppu. Með björgunarpökkum og íhlutun seðlabanka hafi stjórnvöld úthlutað gríðarlegum fjármunum. Margar þessara aðgerða hafi miðað að því að létta undir með fyrirtækjum, nú síðast með uppsagnarstyrkjum. Þá er bent á að tveimur klukkustundum eftir að tilkynnt var um það úrræði hafi Icelandair framkvæmt stærstu fjöldauppsögn Íslandssögunnar, fjármagnaða af ríkinu.
„Áhættan við að veita björgunaraðgerðum gegnum stjórnir einkafyrirtækja er mikil. Hlutabótaleiðin, þar sem fyrirtæki geta fært hluta launakostnaðar á ríkið og lækkað starfshlutfall á móti, hefur verið nýtt af stórfyrirtækjum jafnvel í þann mund sem þau færa hundruð milljóna til hluthafa gegnum arðgreiðslur og endurkaup hlutabréfa. Björgunaraðgerðir enda til jafns hjá þeim sem þurfa þær og þeim sem hafa nóg úr að moða. Risar á markaði, sem hafa árum saman barist gegn sanngjörnum sköttum á arðgreiðslur gegnum sín hagsmunasamtök, viðhalda þannig samkeppnisforskoti sínu með neyðaraðstoð ætlaðri öðrum,“ segir í færslu Eflingar.
Á meðan lýsi stjórnarþingmenn því yfir við kosningar um fjáraukalög að með þessum greiðslum séu vasarnir tómir og ekki til peningar til að hækka atvinnuleysisbætur. Öllum sé hins vegar ljóst að öll viðbótarútgjöld ríkisins nú um stundir eru fjármögnuð með lántökum. Pólitísk ákvörðun hafi verið tekin um að gefa fyrirtækjum betri meðferð en vinnandi fólki.
Enn fremur segir að atvinnuleysisbætur þurfi að hækka verulega, svo fólki sé ekki refsað fyrir að hafa verið rekið í kórónaveirufaraldrinum. Bótum hafi í áraraðir verið haldið lágum til að hrinda fólki út á vinnumarkað, en sú aðferð virkaiekki þegar vinnumarkaðurinn losar sig við vinnuafl í stórum stíl.
Pólitísk ákvörðun hefur verið tekin um að gefa fyrirtækjum betri meðferð en vinnandi fólki. Síðan kórónafaraldurinn...
Posted by Efling on Saturday, May 9, 2020