Um leið og stjórnvöld hafa hvatt fyrirtæki til þess að nýta sér hlutabótaleiðina þá telur Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, að það megi ekki vera þannig að atvinnulífið líti þannig á að það sé sjálfsagt að fara undir ríkiskranann og fá fjármagn til þess að setja í sinn eigin vasa. Þetta kom fram í viðtali við Ásmund Einar í Silfrinu í morgun.
„Það finnst mér siðferðilega ekki ásættanlegt. Bara engan veginn,“ sagði ráðherrann.
Hann vildi enn fremur meina að á þeim tímapunkti sem leiðin var sett fram hefði hún verið skynsamleg gagnvart launafólki. „Vegna þess að við vörðum launafólk mjög vel gagnvart þessum uppsögnum. Hins vegar vil ég segja að ef ekki er hægt í íslensku samfélagi að höfða til siðferðiskenndar stórra fyrirtækja á tímum eins og þessum – ef stjórnmálamenn mega ekki fjalla um það að það sé ekki eðlilegt að fyrirtæki vinni einhvers konar siðferðilegt mat – þá erum við ekki í umræðunni sem við fórum af stað með inn í þetta. Sem var það að við ætluðum öll að vera saman í þessu. Og ef eitthvað er sem ég hef sannfærst á þessum tíma er að við getum ekki treyst því að innan atvinnulífsins sé sú rödd skýr að við séum í sama bátnum í þessu.“
Hann sagði þó að mörg fyrirtæki stæðu sig vel en að stærri fyrirtækin sem teldu það eðlilegt að greiða arð á sama tíma og þau eru með munninn undir ríkiskrananum. „Þá er orðinn ákveðinn forsendubrestur í samtali stjórnvalda við atvinnulífið.“ Hann talaði um þessi fyrirtæki sem svarta sauði og að atvinnulífið þyrfti að axla ábyrgð á því.
Reiður að sjá fyrirtæki segja upp fólki í hlutabótaleiðinni
Ásmundur Einar sagði enn fremur að þegar stjórnvöld hefðu sett þessa löggjöf fram á sínum tíma þá hefði íslensk samfélag verið á þeim stað að landið lokaðist einn, tveir og þrír. „Við þurftum að grípa mjög hratt inn í. Við töldum þá – og vorum að vinna með þá sviðsmynd – að þetta myndi taka skamman tíma. Við værum að sjá ferðaþjónustuna fara núna af stað í maímánuði og júní.“
Hann sagði að frumvarp hefði verið tekið unnið upp úr lögum sem voru hér á landi árin 2008 og 2009 og að unnið hefði verið með aðilum vinnumarkaðarins til að breyta þeim. „Hugsunin var þá að menn mundu þurfa á því að halda í skamman tíma að nýta sér þetta. Síðan verð ég að segja eins og er að við fórum strax að sjá af því fregnir að fyrirtæki sem væru stöndug væru að nýta sér þetta.
Hann sagði jafnframt að honum hefði fundist það mjög skrítið þegar fyrirtæki ætluðu að segja upp fólki í hlutabótaleiðinni. „Fyrirtæki voru byrjuð að gera það. Hvatningin var sú að fyrirtækin nýttu þetta í staðinn fyrir að segja upp fólki en heilt yfir er það náttúrulega þannig að maður höfðar líka til, og við höfum talað um það, að við ætlum að vera saman í þessu. Það er verið að höfða til siðferðiskenndar okkar allra í þessu og þess vegna segir maður: Maður verður reiður að sjá fyrirtæki sem eru gríðarlega stöndug, og hefðu getað ráðið við þetta, að þau hafi verið að reyna að segja upp í hlutabótaleiðinni. Og það er í rauninni ekki boðlegt,“ segir hann.