Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist hafa átt mörg samtöl við stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum vegna stöðu Icelandair og geta staðfest að aldrei hafi komið krafa um það frá stjórn félagsins að endursemja þurfi við starfsfólk félagsis svo það verði „samkeppnishæft“ við önnur flugfélög. Þetta segir hann í stöðuuppfærslu á Facebook í dag og spyr enn fremur hvort það geti verið að stjórnendur félagsins séu helsta fyrirstaðan fyrir því að Icelandair verði bjargað.
Hann segist þó geta fullyrt að lífeyrissjóðirnir opni ekki buddur sínar fyrir félag sem ætlar starfsfólki að afsala sér grundvallarréttindum.
„Það má vera að það sé niðurlægjandi fyrir stjórnendur félagsins að halda hluthafafund án þess að langtímakjarasamningar liggja fyrir en segir það þá ekki allt sem segja þarf um stjórnendur?
Sama stjórn og stjórnendur sem ráku félagið með bullandi tapi á mesta góðæristíma flugsögunnar.
Sama stjórn og stjórnendur sem stigið hafa fleiri feilspor en almennt þekkist í fyrirtækjarekstri og má þar nefna breytingar á leiðakerfi, milljarða framúrkeyrslu við innleiðingu tölvukerfa og innri breytinga.
Sama stjórn og stjórnendur sem bera ábyrgð á milljarða skandal í kringum Lindarvatn.
Sama stjórn og stjórnendur og kusu að standa með samningum um flugvélar sem fáir þora að fljúga með.
Sama stjórn og stjórnendur og vilja nú með öllum ráðum velta fortíðarvanda félagsins yfir á lífeyrissjóði og skattgreiðendur í nafni þess að vandamálið sé starfsfólkið þegar málið snýst um það sem fáir virðast þora að segja. Að halda núverandi stjórnendaklíku við völd í einu af stærstu og mikilvægustu fyrirtækjum landsins.
Sama stjórn og stjórnendur og telja sig geta sannfært fjárfesta með trúðverðugum áætlunum, en munu svo vafalaust kenna starfsfólkinu um ef illa fer og ekki tekst að fjármagna félagið,“ skrifar hann.
Icelandair verður bjargað með einhverjum hætti
Ragnar Þór segist enn fremur vera orðinn þreyttur á því að alltaf skuli starfsfólkið vera aðalvandamálið þegar illa gangi þegar annað sé augljóst. „Ég veit til dæmis að nokkrir stjórnarmenn lífeyrissjóða hafa velt því fyrir sér hvort ekki þurfi að setja það sem skilyrði að stjórn og stjórnendum verði skipt út ef skoða eigi þátttöku í hlutafjárútboði“
Hann telur að flestum sé það ljóst að Icelandair verði bjargað með einhverjum hætti og að mögulega sé það ekki versti kosturinn verði það gert með sama hætti og með bankana eftir hrun. Það mætti jafnvel skoða að starfsfólkið tæki félagið yfir með stuðningi ríkisins og lífeyrissjóða.
„En hvernig sem það verður gert munum við tryggja að réttindi og samningar við starfsfólkið verði virt svo sómi sé af.
Vil að lokum senda starfsfólki Icelandair baráttukveðjur. Þið eruð lausnin ekki vandamálið,“ segir hann að lokum.
Gæti verið að stjórnendur félagsins séu helsta fyrirstaðan að Icelandair verði bjargað? Ég hef átt mörg samtöl við...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Sunday, May 10, 2020