Dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, kjötvinnslan Esja Gæðafæði ehf. í Reykjavík, hefur ákveðið að endurgreiða um 17 milljónir króna sem það fékk í stuðning úr ríkissjóði eftir að hafa sett starfsfólk á hina svokölluðu hlutabótaleið.
Í tilkynningu frá Kaupfélagi Skagfirðinga segir að það muni veita Esju sérstaka fjárhagsaðstoð til þess að gera endurgreiðsluna mögulega. „Að gefnu tilefni skal tekið fram að kjötvinnslan hefur aldrei greitt kaupfélaginu arð. Vegna umræðu um arðgreiðslur er áréttað að Kaupfélag Skagfirðinga starfar á grundvelli laga um samvinnufélög. Af þeirri ástæðu hefur það alla tíð, eða í 130 ár, nýtt langstærstan hluta framlegðar starfseminnar til innri uppbyggingar í stað hefðbundinna arðgreiðslna hlutafélaga til eigenda sinna.“
Kaupfélag Skagfirðinga er risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða og FISK Seafood, útgerðararmur þess, hefur látið verulega til sín taka í íslensku atvinnulífi að undanförnu, eins og var til umfjöllunar í fréttaskýringu á vef Kjarnans, 13. september 2019.
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri, hefur leitt félagið um árabil sem forstjóri og var afkoma félagsins á árinu 2018 sú besta í 130 ára sögu félagsins. Þá skilaði það fimm milljarða króna hagnaði. Uppbygging kaupfélagsins hefur verið verulega umfangsmikil á undanförnum árum, en í lok árs í fyrra var eigið fé félagsins rúmlega 35 milljarðar og heildareignir námu 62,3 milljörðum króna.